17 feb Frelsi fjölmiðla
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra spyr í Facebook-færslu hvort fjölmiðlafólk falli ekki undir þá kröfu að allir skulu jafnir fyrir lögunum. Þetta er áhugaverð nálgun formanns Sjálfstæðisflokksins á anga máls sem hefur valdið undrun og hneykslun langt út fyrir landsteinana. Um er að ræða framgöngu stjórnenda Samherja í Namibíu sem öllum er kunn og ekki síður viðbrögð þeirra við fjölmiðlaumfjöllun um málið.
Burtséð frá efnisatriðum málsins sem hafa valdið úlfaþyt, deilum og dómsmálum sem ekki sér fyrir endann á, þá er hér um að ræða áhugaverða sýn á starf og mikilvægi frjálsar fjölmiðlunar. Setjum þessa sýn í samhengi við þá staðreynd að á síðustu árum höfum við fallið úr áttunda sæti lista yfir þau lönd þar sem íbúar njóta mests fjölmiðlafrelsis niður í 16. sæti. Og höfum í huga að þó frelsi fjölmiðlafólks til að sinna starfi sínu sé auðvitað undir, þá snýst þetta í grunninn um þá grundvallarhagsmuni almennings að við höfum hér frjálsa og gagnrýna fjölmiðla sem eru til þess bærir að gefa almenningi upplýsingar og veita stjórnvöldum og hagsmunaöflum aðhald.
Til að svara ráðherra beint þá er svarið einfaldlega þetta: Það gilda hér einmitt önnur lög um fjölmiðlafólk. Það eru undanþáguákvæði í almennum hegningarlögum sem snúa að brotum á friðhelgi einkalífsins og var bætt inn sérstaklega með hagsmuni fjölmiðla í huga. „Er hér m.a. litið til þess að ákvæðið hamli ekki störfum og tjáningarfrelsi fjölmiðla, m.a. í þeim tilvikum þegar þeir fá aðgang að gögnum eða forritum sem hefur verið aflað í heimildarleysi og geti varðað almannahagsmuni,“ segir í nefndaráliti frá allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis. Þá kveða lög um fjölmiðla á um að fjölmiðlafólki er óheimilt að gefa upp nöfn heimildarfólks í óþökk þess.
Það er vont ef fólk tekur afstöðu til frelsis fjölmiðla í tengslum við þetta eina mál. Slíkt gagnast engum og ekki frjálsri fjölmiðlun sem fyrir margra hluta sakir á undir högg að sækja hér á landi. Verkefnið sem við þurfum öll að sameinast um er að snúa þeirri þróun við.