01 feb Hver erum við?
Enn og aftur er íslenska þjóðarskútan að sigla inn í tímabil verðbólgu og vaxtahækkana. Enn og aftur leita stjórnvöld logandi ljósi að öðrum skýringum en þeirri augljósu sem liggur í örgjaldmiðlinum okkar sem hoppar og skoppar eins og korktappi í ölduróti efnahagslífsins og ýkir til muna þær sveiflur sem aðrar þjóðir búa við. Brúsann borgar svo almenningur hér á landi, ekki síst í formi hækkandi lána. Enn og aftur.
Það er ekkert sérstaklega traustvekjandi að fylgjast með viðbrögðum ríkisstjórnarinnar og fylgifiskum hennar nú þegar verðbólgudraugurinn, þessi gamli fjandvinur íslensks almennings, er kominn aftur á kreik. Þær afsakanir sem ríkisstjórnin og fylgifiskar hennar hafa helst kynnt til sögunnar gera lítið annað en að magna upp drauginn. Í fyrsta lagi að þetta sé innflutt Covid-verðbólga sem ekki sé hægt að eiga við. Hins vegar að verðbólgan sé húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar að kenna.
Það er fráleit söguskýring að láta sem ríkisstjórnin sé stikkfrí. Hækkun verðbólgu á heimsvísu má vissulega rekja til kórónuveirufaraldursins en þær miklu sveiflur sem við búum við hér á landi eru hins vegar séríslenskt ástand. Íslensku ofursveiflurnar eru sem sagt ekki náttúrulögmál, heldur afleiðingar ákvarðana og aðgerða ríkisstjórnarinnar. Þessar sveiflur eru fyrst og fremst tengdar gjaldmiðlinum okkar, þar sem blessaður sveigjanleikinn þýðir á mannamáli reglubundna kjararýrnum fyrir fólk og flest fyrirtæki.
En krónan fríar ekki ríkisstjórnina annarri ábyrgð á stöðunni. Í áramótablaði Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar var áhugavert viðtal við Sigríði Benediktsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra fjármálastöðugleika Seðlabankans. Þar var meðal annars komið inn á þær aðstæður sem eru uppi á húsnæðismarkaði þar sem mikil eftirspurn hefur keyrt verðið upp. Sigríður segir m.a. ljóst að það hefði mátt sjá fyrir hvaða áhrif vaxtalækkanir Seðlabankans myndu hafa á fasteignamarkaðinn. Eðlilegast og skynsamlegast hefði verið að greiðslumeta alla kaupendur miðað við 7% nafnvexti líkt og t.d. Bretar geri óháð því á hvaða vöxtum lán eru tekin. Sigríður segir síðan: „Við erum hins vegar komin í kerfi sem fæstar þjóðir í heiminum vilja vera með. […] Breska pundið er mun stöðugra en okkar gjaldmiðill sem leiðir það af sér að verðlag er einnig mun stöðugra þar í landi. Ef Bretar sjá þörf á slíkum varúðarráðstöfunum, eins og að festa vexti í upphafi lánstíma og greiðslumeta miðað við 7% nafnvexti – hver erum við?“
Já, hver erum við? Og hvernig viljum við vera? Viljum við ekki vera þjóð þar sem aðgerðir stjórnvalda frekar en afsakanir eru leiðarljósin út úr vandanum hverju sinni? Þjóð þar sem störf ríkisstjórnar eru í þágu almennings?
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. febrúar 2022