Sundabraut vinnur með þéttingu byggðar

Þau sem eldri eru en tvæ­vet­ur eru kannski hætt að hlusta á lof­orð um Sunda­braut, nýja leið út úr Reykja­vík sem eyk­ur bæði aðgengi að borg­inni og út úr henni. Í hjarta mínu trúi ég því að tek­in hafi verið stór skref í átt að Sunda­braut­inni með nýrri fé­lags­hag­fræðigrein­ingu sem sýn­ir hversu hag­kvæmt verk­efni Sunda­braut er, hvort sem farið verður í brú eða göng.

 

Göng eða brú?

Hlut­verk Reykja­vík­ur­borg­ar í því verk­efni er að verja hags­muni borg­ar­búa, ekki síst þeirra sem verða fyr­ir áhrif­um af Sunda­braut­inni með auk­inni um­ferð í nærum­hverf­inu. Og fá skipu­lag um Sunda­braut samþykkt sem all­ir hagaðilar fá tæki­færi til að hafa áhrif á. Skipu­lagið þarf auðvitað að taka til­lit til þeirr­ar byggðar sem er í Reykja­vík, bæði hvað varðar Vog­ana en ekki síður Grafar­vog, þannig að Grafar­vogs­bú­ar hafi áfram gott aðgengi að úti­vist­ar­svæði sínu við strönd­ina.

Göng eða brú hafa hvor um sig kosti og galla. Fal­leg brú gæti orðið eitt helsta ein­kenni borg­ar­lands­ins, sem yrði líka hægt að hjóla eða ganga yfir, en göng trufla síður um­hverfi þeirra sem búa ná­lægt Sunda­braut. Þá þarf að meta áhrif brú­ar eða ganga á Sunda­höfn og notk­un henn­ar sem stór­skipa­hafn­ar.

 

Teng­ir Reykja­vík bet­ur sam­an

Einn helsti kost­ur Sunda­braut­ar yrði að tengja hverfi Reykja­vík­ur bet­ur sam­an á sama tíma og hún get­ur styrkt þétt­ingu byggðar. Grafar­vog­ur og Kjal­ar­nes myndu með Sunda­braut fær­ast tölu­vert nær miðborg­inni. Um­ferðarálag myndi dreifast meira á ein­hverj­um stöðum, þótt Sunda­braut hefði lít­il áhrif á öðrum.

Mikl­ar breyt­ing­ar eru að verða á Ártúns­höfðanum, þar sem at­vinnu­hús­næði er að víkja fyr­ir íbúðar­hús­næði. Þetta er mjög eðli­leg þróun í vax­andi borg; að land­frekt at­vinnu­hús­næði flytj­ist þangað sem landsvæðið er rýmra og ódýr­ara á meðan verðmæt­ara land er byggt upp sem ný hverfi. Þetta sjá­um við, auk Ártúns­höfðans, á Kárs­nes­inu í Kópa­vogi og í Hraun­un­um í Hafnar­f­irði.

 

Styrk­ir veru­lega nýtt iðnar­svæði á Esju­mel­um

Lít­ill og meðal­stór iðnaður á samt að eiga sér stað inn­an borg­ar­mark­anna og gott svæði er fyr­ir hendi á Esju­mel­um. Sam­keppn­is­hæfni Esju­mel­anna myndi styrkj­ast veru­lega við að fá Sunda­braut og tengj­ast þannig Reykja­vík bet­ur. Með þægi­legri fjar­lægð get­ur Reykja­vík stutt við fjölg­un fyr­ir­tækja sem ann­ars gætu fundið sér stað í ná­granna­sveit­ar­fé­lög­un­um.

Ein stærsta breyt­ing­in yrði svo á um­ferð þunga­flutn­inga, sem myndu í mun minna mæli skríða upp Ártúns­brekk­una og í gegn­um Mos­fells­bæ á leið vest­ur og norður um land. Í grein­ar­gerð Mann­vits og Cowi kem­ur fram að sendi­ferðabíl­ar og þunga­flutn­ing­ar myndu spara um 30 þúsund km í akstri á ári, miðað við að ferðum fjölgaði ekki, með því að fara beinni leið upp á Kjal­ar­nes.

En við vilj­um ekki bara færa meng­un­ina og um­ferðar­vand­ann úr Mos­fells­bæ og í Vog­ana eða Grafar­vog. Því þarf að und­ir­búa Sunda­braut vel og gera hana þannig úr garði að um­hverf­isáhrif­in verði sem minnst. Því er næsta skref að vinna um­hverf­is­mat og fara í víðtækt sam­ráð við íbúa í nærum­hverf­inu og aðra hagaðila.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. febrúar 2022