Verbúðin og Vinstri græn

Á dögunum sat ég í mjög áhugaverðu pallborði þar var komið inn á pólitíkina í hinum mögnuðu þáttum, Verbúðin. Það er áhugaverð saga, sem sýnir hversu pólitíkin getur stundum verið snúin.

Í síðasta þætti Verbúðarinnar kom fram að Sjálfstæðisflokkurinn hefði verið andvígur frjálsu framsali, þegar það var fyrst lögfest. Ég hef fundið að þetta hefur komið mörgum á óvart.

Langur aðdragandi

Allt gerðist þetta í nokkrum áföngum og það eru nærri fjörutíu ár síðan ferlið hófst.

Fyrstu átta árin giltu kvótalög bara til skamms tíma í senn, ýmist í eitt eða tvö ár. Veiðirétturinn var ekki tryggður í lengri tíma. Við þær aðstæður var tómt mál að tala um frjálst framsal.

Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn báru ábyrgð á þessari lagasetningu í upphafi. Alþýðubandalagið var alltaf á móti.

Árið 1990 kom sjávarútvegsráðherra Framsóknar hins vegar með frumvarp sem fól í sér varanlega úthlutun aflaheimilda og frjálst framsal þeirra. Þetta var stóra kerfisbreytingin.

En þegar hér var komið sögu sat vinstri stjórn í landinu með aðild Alþýðubandalagsins. Samhliða frumvarpinu um ótímabundna úthlutun kvóta og frjálst framsal lagði stjórnin fram frumvarp um Þróunarsjóð sjávarútvegsins.

Hugmyndin með honum var að koma á pólitískri fyrirgreiðslustofnun til þess að halda fyrirtækjum gangandi, sem ekki stóðust almenn rekstrarskilyrði.

Hugsjónir og ráðherrastólar

Sjálfstæðisflokkurinn notaði þessa pólitísku sjóðshugmynd um miðstýrt apparat, sem forsendu fyrir því að greiða atkvæði gegn málunum tveimur í heild sinni. En baksviðið er sennilega flóknara enda margir innan flokksins fylgjandi framsalinu.

Innan Alþýðubandalagsins var áfram mikil andstaða við frjálsan markaðsbúskap í sjávarútvegi. Margir þingmenn flokksins gáfu til kynna að þeir myndu greiða atkvæði gegn breytingunni í samræmi við kosningaloforðin þó að ráðherrarnir verðu afstöðu sína með því að mikilvægara væri fyrir þjóðina að njóta áframhaldandi setu flokksins í ríkisstjórn.

Þetta þýddi með öðrum orðum að fórna hugsjónum fyrir ráðherrastóla. Það stóð lengi vel í nokkrum þingmönnum Alþýðubandalagsins og því var óvissa um að ríkisstjórnarflokkarnir gætu sjálfir tryggt meirihluta.

Ég held að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi í þessari stöðu fyrst og fremst hugsað um að knýja þingmenn Alþýðubandalagsins til þess að velja á milli þess að taka ábyrgð á þessu stærsta máli ríkisstjórnarinnar eða láta hana falla. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins ætluðu sem sagt ekki að hlaupa í skarðið fyrir þá.

Sagan endurtekur sig

Undir forystu ráðherra Alþýðubandalagsins ákváðu þingmenn flokksins á endanum að fórna hugsjóninni til að tryggja að þeirra menn sætu áfram í ríkisstjórn.

En sú dýrð stóð bara í fjóra mánuði. Þá komu kosningar. Ríkisstjórnin fór frá þótt hún hafi fengið meirihluta þingsæta. Alþýðubandalagið fór í stjórnarandstöðu og snerist um leið gegn kerfinu, sem þingmenn þess höfðu lögfest.

Þegar Vinstri græn tóku við af Alþýðubandalaginu hertist andstaðan við kerfið enn.

Fyrir kosningarnar 2017 fylgdi VG þeirri stefnu að stórhækka auðlindagjöld og tímabinda veiðiheimildir.

Undir forystu ráðherranna Katrínar Jakobsdóttur og Svandísar Svavarsdóttur í núverandi ríkisstjórn hafa þingmenn VG aftur á móti ítrekað fórnað þeim málstað fyrir einhverja aðra hagsmuni, sem fæstum eru sýnilegir.

Tillögur Viðreisnar og andstaða VG

Viðreisn hefur á tíma þessarar ríkisstjórnar flutt frumvörp um að gjald komi fyrir tímabundin afnotarétt með uppboði á kvóta. Að farin verði markaðsleið. Líkt og um áttatíu prósent þjóðarinnar er fylgjandi. Ráðherrar VG hafa beitt forystuhlutverki sínu í ríkisstjórninni til að stöðva framgang þeirra tillagna.

Við buðum líka fram málamiðlun með því að leggja til að gjöldin yrðu óbreytt og úthlutunarreglurnar þær sömu ef stjórnarflokkarnir féllust á að tímabinda nýtingarréttinn. Ráðherrar VG höfnuðu því sáttaboði.

Við buðumst til að samþykkja tillögu forsætisráðherra að auðlindaákvæði í stjórnarskrá með því eina skilyrði að nýtingarrétturinn yrði tímabundin. Ráðherrar VG höfnuðu því sáttaboði.

Við höfum ítrekað  flutt frumvarp um takmarkanir á stærð einstakra fyrirtækja og kröfur um aukið gagnsæi. Það felur í sér:

·      Í fyrsta lagi að gera ákvæði um hámarksaflahlutdeild einstakra útgerða virk.

·      Í öðru lagi að tryggja aukið gegnsæi með því að stærri útgerðir yrðu skráðar á markað.

·      Í þriðja lagi að allra stærstu útgerðirnar yrðu í dreifðri eignaraðild.

Ráðherrar VG hafa komið í veg fyrir framgang þessa máls. Vissulega með dyggum stuðningi Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins.

Endurspeglun á pólitíkinni í Verbúðinni

Steingrímur J. Sigfússon og Svavar Gestsson fórnuðu hugsjóninni í fjóra mánuði fyrir ráðherrastóla.

Þær Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir hafa fórnað hugsjóninni fyrir ráðherrastóla í fjögur ár á síðasta kjörtímabili og lofað í stjórnarsáttmála að gera það í önnur fjögur ár.

Þessi pólitík Vinstri grænna er spegilmynd þess sem við höfum fengið að fylgjast með í Verbúðarþáttunum. Jafn nöturlegt og það er.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. febrúar 2022