24 feb Viðsjár og veikleiki Íslands
Hugsanleg aðild Úkraínu að Atlantshafsbandalaginu er átylla fyrir innrás Pútíns. Raunveruleg ástæða er ótti hans við áhrif lýðræðisþróunar í grannlandi.
Leiðtogar Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins hafa réttilega fordæmt innrásina.
Viðskiptaþvinganir
Frá upphafi hefur legið fyrir að lýðræðisþjóðirnar myndu ekki beita hervaldi til að verja fullveldi Úkraínu. Skuldbindingar Atlantshafsbandalagsins ná ekki til þess.
Veruleikinn er eigi að síður sá að Úkraínu verður ekki bjargað nema með hervaldi. Í stöðunni eru viðskiptaþvinganir þó eini mögulegi mótleikur lýðræðisríkjanna. Þær stöðva ekki Pútín en geta samt sem áður orðið honum þungar í skauti heima fyrir.
Aflið til að beita viðskiptaþvingunum skortir ekki. En hikið hefur verið of mikið. Þannig vildu vesturveldin ekki segja fyrir fram til hvaða þvingana yrði gripið. Það hefði verið sterkara.
Í heild hefðu viðbrögðin mátt vera öflugri. En sennilega hefur það komið Pútín mest á óvart að meiri þungi var í fyrsta mótleik Þjóðverja en Bandaríkjanna.
Þrátt fyrir þessa varfærni hafa þvinganirnar mikla þýðingu og reyndar allur stuðningur, fjárhagslegur og hernaðarlegur. Ísland hefur skyldum að gegna í því samhengi.
Þátttaka Íslands
Utanríkisráðherra hefur ítrekað lýst því yfir að Ísland muni fylgja bandalagsþjóðunum í viðskiptaþvingunum gagnvart Rússlandi.
Það er mikilvægt til að sýna samstöðu með fullvalda Evrópuþjóð. En hitt skiptir líka máli fyrir alþjóðlega stöðu okkar að skerast ekki úr leik.
Þegar Rússar innlimuðu Krímskaga tók þáverandi utanríkisráðherra einnig eindregna afstöðu. En Rússar svöruðu með innflutningsbanni, sem Ísland hefur vissulega fundið fyrir.
Á þeim tíma var bakland utanríkisráðherra veikara því að formenn þáverandi stjórnarflokka, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, lýstu báðir efasemdum um viðskiptaþvinganir vegna gagnráðstafana Rússa. Og þáverandi forseti Íslands vann beinlínis gegn stefnu utanríkisráðherra.
Sem betur fer hefur engin tvöfeldni af þessu tagi komið fram nú.
Breytt heimsmynd
Evrópa er á allt öðrum stað en í kalda stríðinu. Heimsmyndin hefur breyst.
Samband Rússa og Kínverja er orðið þéttara. Áður veikti spennan þar á milli áhrifamátt Rússlands. Um leið hjálpaði hún Bandaríkjunum og Evrópu að viðhalda valdajafnvæginu.
Við þessa breytingu bætist að nú ríkir veruleg viðskiptaleg og hernaðarleg spenna milli Bandaríkjanna og Kína. Áður þurftu Bandaríkin ekki að hafa áhyggjur af Kína. Nú er Kína á hraðferð fram úr Bandaríkjunum.
Allt hefur þetta áhrif á stöðu minni ríkja og Evrópulanda í heild. Þau verða því að skoða hagsmuni sína í nýju ljósi. Það á líka við um Ísland. Við höfum ekki tekið nein ný skref í fjölþjóðasamvinnu í þrjá áratugi.
Á dögunum kynnti danska ríkisstjórnin nýjar áherslur í utanríkis- og varnarmálum. Þetta var viðbragð við breyttri heimsmynd og nýjum ógnum. Mest áhersla verður lögð á að auka og dýpka samstarfið innan Evrópusambandsins, Atlantshafsbandalagsins og við Bandaríkin.
Nýlega óskaði landsstjórn Færeyja einnig eftir auknu samstarfi við Evrópusambandið.
Staða smáríkja
Í meginatriðum hefur utanríkisstefna Íslands byggt á sömu stoðum og utanríkisstefna Danmerkur. Munurinn liggur eingöngu í fullri aðild Dana að Evrópusambandinu á meðan aðild okkar takmarkast enn við innri markað þess og Schengen.
Við þurfum rétt eins og Danir og aðrar minni þjóðir að styrkja stöðu okkar í fjölþjóðasamfélaginu í ljósi nýrra aðstæðna og ógna. Hagur Íslands er að efla samstarf lýðræðisríkjanna í Evrópu.
Eðlilegast er að stíga ný skref á þeim grunni, sem við höfum byggt á og sækja þangað aukið efnahagslegt og pólitískt skjól og styrk.
Hættulegur veikleiki
Innri pólitískur veikleiki hamlar því aftur á móti að Ísland geti brugðist við nýrri og breyttri heimsmynd og sótt fram til að styrkja stöðu Íslands eins og Danir gera innan Evrópu og yfir Atlantshafið.
Ástæðurnar eru tvær:
Sú fyrri er að það er of viðkvæmt að nefna aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu vegna gamallar bábilju í forystuflokki ríkisstjórnarinnar.
Sú seinni lýtur að hinni meginstoð utanríkisstefnunnar, aðildinni að innri markaði Evrópusambandsins. Hana má heldur ekki nefna vegna nýrrar innanbúðar bábilju í tveimur stærri flokkum stjórnarsamstarfsins.
Á viðsjárverðum tímum er þetta hættulegur veikleiki.