10 mar Ekki hjá okkur?
Ég fékk gríðarlega sterk og jákvæð viðbrögð við frumvarpi mínu um að gera það refsivert að neyða einstakling til að bæla eða reyna að breyta kynhneigð sinni, kynvitund eða kyntjáningu. Ég geymi mér frásagnir sem mér hefur verið trúað fyrir af fólki sem hefur verið misþyrmt, andlega eða líkamlega, í þessum tilgangi.
Þau voru hins vegar líka fyrirsjáanleg viðbrögðin sem voru á þá leið að þetta frumvarp væri fullkominn óþarfi. Ég skil vel að fólk sem ekki þekkir til eigi erfitt með að trúa því að svona skelfilegt athæfi viðgangist hér á Íslandi. Hér er þó skautað yfir aðalatriði málsins sem er að misþyrmingar af þessu tagi, svokallaðar bælingarmeðferðir, varða ekki við lög núna. Í sérstökum kafla íslenskra hegningarlaga er fjallað um brot gegn frjálsræði manna. Listinn er langur en ekki tæmandi og eitt af því sem hegningarlögin ná ekki til er bælingarmeðferðir á hinsegin fólki. Samkvæmt frumvarpinu sem ég hef lagt fram verður líka lögfest bann við slíkum meðferðum á börnum, hvort sem þær eru framkvæmdar hér á landi eða barnið flutt úr landi í þeim tilgangi, og við því að framkvæma eða hvetja, með beinum eða óbeinum hætti, til slíkra meðferða.
Það er sannarlega ekki að ástæðulausu að bælingarmeðferðir hafa víða um heim verið bannaðar með lögum að viðlagðri refsingu. Enn víðar er slíkt bann í bígerð. Ísland hefur á alþjóðavettvangi ítrekað lýst yfir andstöðu við slíkar meðferðir, t.d. á fundi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna sumarið 2020, þar sem fjallað var um skýrslu ráðsins um alvarlegar afleiðingar bælingarmeðferða á hinsegin fólki.
Mörg þúsund Íslendingar hafa tilheyrt sértrúarsöfnuðum. Þessir söfnuðir starfa gjarnan í nafni kærleika og umburðarlyndis en reynsla margra er því miður önnur. Í vikunni kafaði fréttaskýringaþátturinn Kompás ofan í hugtakið trúarofbeldi og ræddi við fyrrverandi félaga sértrúarsafnaða á Íslandi. Þar lýsti fólk því hvernig fordómar gegn hinsegin fólki eru alltumlykjandi og þeim aðferðum sem beitt er til að „reka syndina burt“. Fyrir utan líkamlega ofbeldið þá er andlegu ofbeldi beitt til að tengja upplifun þolandans á kynhneigð, kynvitund eða kyntjáningu sinni við sársauka og skömm. Fólk er kerfisbundið brotið niður þar til það fer að trúa því sjálft að það eigi ekkert gott skilið. Sektarkenndin og vanlíðanin á víst að duga til að breyta fólki þannig að það verði Guði þessara sértrúarsafnaða þóknanlegt. Staðreyndin er auðvitað önnur eins og allt viti borið fólk veit.
Það er tímabært að stíga skrefið til fulls, færa okkur til nútímans og festa í lög hér bann við svona alvarlegri aðför að frelsi og heilsu hinsegin fólks.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. mars 2022