29 mar Hamfaraspár vegna hinsegin fólks
Í minningunni virðast fleiri mannsaldrar síðan samkynhneigðum var meinað að ganga í hjónaband hér á landi. Í raunheimum eru þó aðeins 15 ár liðin frá því ný hjúskaparlög tóku gildi sem heimiluðu hjónaband tveggja einstaklinga af sama kyni. Mikilvægi þeirrar réttarbótar fyrir fjölda fólks er öllum kunnugt. Minna fer fyrir upplifun fólks á þeim hamfaraspám sem andstæðingar lögðu áherslu á í aðdraganda breytinganna en samkvæmt þeim yrði höggvið að rótum samfélagsins þar sem konum og körlum yrði hreinlega úthýst úr hjónabandinu. Gott ef ekki stigu fram konur sem óttuðust að þær yrðu ekki lengur konur, ef samkynhneigðir fengju að verða hjón í lagalegum skilningi.
Hamfarirnar urðu auðvitað ekki. Samfélagið er fullt af gagnkynja hjónum og líka hinsegin hjónum. Samfélagið er líka áfram fullt af körlum og konum, gagnkynhneigðu fólki sem og samkynhneigðu og alls konar öðru hinsegin fólki. Frelsi og mannréttindi fyrir alla er svo grunnurinn sem við byggjum velferðarsamfélagið okkar á.
Nú hefur hins vegar verið blásið í aðra hamfaraspá vegna réttinda hinsegin fólks. Það eru ekki hjónaböndin lengur sem ógna samfélaginu heldur trans fólk. „Ríkisvaldið á ekki að styðja ranghugmyndir fólks. Hvað þá að lögfesta þær á kostnað almennings,“ var ritað í grein hér í Morgunblaðinu fyrir helgi. Greinin fjallaði um mannréttindi, þótt augljóst hafi verið að greinarhöfundur taldi að trans fólk ætti að vera undanþegið slíkum réttindum.
Það kveður við óþægilega kunnuglegan tón í þeim harða áróðri, sem dynur á trans fólki þessa dagana. Þar kvikna aftur til lífsins alls konar fullyrðingar sem við héldum að við hefðum kveðið endanlega í kútinn með réttindabaráttu samkynhneigðra á árum áður. Fullyrðingar þar sem fordómar drupu af hverju orði, þar sem samkynhneigðir voru álitnir til marks um hnignun mannkyns, eyðileggjandi menningu, trú og allt sem hægt var að telja upp heilagast, þar með talið þetta með hjónabandið sem átti að enda á öskuhaugum sögunnar ef samkynhneigðir fengju að giftast. Heimurinn var hreinlega að farast, að mati heimsendaspáfólksins.
Staðreyndin er þó sú að heiminum hefur aldrei staðið minnsta ógn af frelsi. Þau sem nú sækja harðast fram gegn trans fólki kæra sig hins vegar ekkert um lærdóm sögunnar. Orðræðan, þessi einbeitti vilji til að hefta frelsi annars fólks, er þekkt í baráttunni gegn réttindum samkynhneigðra og annars hinsegin fólks og þar áður gegn réttindum kvenna. Og sagan er auðvitað miklu lengri.
Það er heimskulegt, hættulegt og umfram allt aumt að óttast ekkert meira en frelsi og mannréttindi annarra.