19 mar Hjartað í Evrópu
Ein sterkasta minning mín úr æsku tengist því þegar ég stóð fyrir framan hús skólasystur minnar sem var að brenna til kaldra kola. Enginn slasaðist en fátt bjargaðist af veraldlegum munum. Ég var eðlilega upptekin af þessum atburði og foreldrar mínir róuðu mig með því að ræða um mikilvægi forvarna. Hvernig við gætum búið okkur undir það óvænta. Hvernig við reynum að tryggja okkur fyrir því versta.
Það er kviknað í Evrópu núna. Mannslíf, heimili, framtíðarplön, samfélög. Pútín Rússlandsforseti og hermenn hans hlífa engu. Mitt í rústunum stendur Selenskí forseti Úkraínu og segir við heiminn: „Við erum ekki bara að verja landið okkar, við erum að verja Evrópu.“ Þjóðhöfðingjar Evrópu, þar með talið Íslands, tala enda einu máli um að stríðsrekstur Pútíns í Úkraínu sé árás á vestræn gildi. Árás á þau gildi frelsis, jafnréttis og mannréttinda sem hafa verið fest í sessi í vestrænum lýðræðisríkjum frá lokum síðari heimsstyrjaldar.
Það er því dapurlegt að heyra málflutning hér á landi um að nú sé ekki rétti tíminn til að ræða öryggis- og varnarhagsmuni Íslands. Að það jaðri við tækifærismennsku að færa slíkt í tal á þessum tímum. Ég held reyndar að fólk sem þannig talar trúi fæst eigin orðum. Handritinu hefur hins vegar verið dreift. Staðreyndin er auðvitað sú að það er grafalvarlegt ef reyna á í alvöru að þagga umræðu um mál sem varðar grundvallarhagsmuni Íslands. Enginn getur tekið sér slíkt dagskrárvald í lýðræðissamfélagi, ekki einu sinni kjörin stjórnvöld. Það eina sem ávinnst er að viðkomandi sýnir svo ekki verður um villst fram á eigið getuleysi við að leiða varnar- og öryggismál Íslands í nýrri og breyttri heimsmynd. Og engin fýluköst eða gífuryrði einstaka stjórnmálamanna breyta þeirri staðreynd að Evrópusambandið er í forystuhlutverki við að standa vörð um þau gildi sem við byggjum á. Að hjarta okkar er í Evrópu.
Blóðbaðið í Úkraínu er sterk áminning um það hversu fljótt veður geta skipast í lofti. Að leið lýðræðisþjóða í Evrópu til að tryggja hagsmuni sína felst í aðild að Evrópusambandinu og Atlantshafsbandalaginu. Í þeim anda hefur Viðreisn lagt fram þingsályktunartillögu um aukið alþjóðlegt samstarf í öryggis- og varnarmálum þar sem utanríkisráðherra yrði m.a. falið að meta kosti þess að stíga lokaskrefið að fullri aðild að Evrópusambandinu. Slíkt skref verður ekki stigið í einu vetfangi en nýtt stöðumat er óhjákvæmilegt. Fyrsta skrefið er að opna umræðu, sem hefur verið lokuð. Í þeirri lokun felst nefnilega óviðunandi uppgjöf fyrir verkefnum samtímans.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. mars 2022