01 mar Með símann að vopni
„Í draumi sérhvers manns er fall hans falið.
Þú ferðast gegnum dimman kynjaskóg
af blekkingum, sem brjóst þitt hefur alið
á bak við veruleikans köldu ró.“
Þessar ljóðlínur Steins Steinars frá árinu 1942 er freistandi að heimfæra á þá feigðarför sem Pútín Rússlandsforseti leiðir nú þjóð sína í. Nina L. Khrushcheva, langafabarn fyrrverandi leiðtoga Sovétríkjanna, skrifaði í Morgunblaðið í gær að Pútín virtist hafa fallið fyrir sjálfhverfri þráhyggju sinni um að endurheimta valdastöðu Rússlands með eigið skilgreint áhrifasvæði.
Stjórnmálaskýringum ber almennt saman um að Pútín hafi ofmetið stuðning hefðbundinna bandalagsþjóða Rússlands við árás hans á Úkraínu. Og að sama skapi vanmetið viðbrögð Vesturlanda. Ekki látið sér detta í huga að Þjóðverjar myndu án hiks ákveða að senda vopn til Úkraínu; aldrei trúað því að rússneskir bankar yrðu sviptir aðgengi að SWIFT-kerfinu, að Sviss myndi frysta eigur Rússa þar, ekki látið sér til hugar koma að sá sem hann taldi fóstbróður sinn í Ungverjalandi myndi taka stöðu með Evrópusambandinu. Hann getur ekki einu sinni treyst á stuðning Erdogans í Tyrklandi og hefur mögulega þurft að segja honum það nokkrum sinnum.
Fjölmiðlar, t.d. bæði hinn breski Guardian og bandaríska CNN, hafa fjallað um hvernig síminn er orðinn áhrifamesta vopn Volodímírs Selenskís, forseta Úkraínu. Hann hefur verið óþreytandi að hringja í leiðtoga fjölmargra ríkja, ekki aðeins þeirra sem næst Úkraínu liggja heldur víða um heim. Og hann hefur verið persónulegur, fullur tilfinninga og eldmóðs. Þannig hafi honum tekist að ná áður óþekktum árangri í að fá vestræn ríki til að samþykkja þvingunaraðgerðir gegn Rússum. Aðgerðir sem fyrir viku hefðu þótt óhugsandi.
Í eina tíð var talað um að Víetnamstríðið hefði því sem næst verið háð í beinni útsendingu, því fréttir af því bárust svo hratt um heiminn. Síðar var því haldið fram að Flóastríðið hefði verið fyrsta stríðið í beinni útsendingu og mátti til sanns vegar færa, því þaðan bárust gervihnattamyndir í rauntíma. Arabíska vorið var m.a. rakið til þess að mótmælendur náðu að stilla saman strengi sína á samfélagsmiðlum. Og nú stefnir í að sími Selenskís verði sá tæknibúnaður sem skiptir sköpum í Úkraínu.
Merkasti árangur Selenskís er líklega sá að minna aðra þjóðarleiðtoga á að hvað sem allri leikja- og hernaðarfræði líður þá bitnar ófriður á saklausu fólki. Þjóðarleiðtogum ber einfaldlega skylda til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að bregðast við símtölum sem minna á þau einföldu sannindi. Hvað sem allri leikjafræði líður.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. mars 2022