29 mar Þjóðarviljinn er lýðræðið sjálft
Það er af ástæðu sem lagt hefur verið til á Alþingi að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort halda skuli áfram aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið. Ástæðan er annars vegar sú að heimsmyndin hefur breyst vegna stríðsins í Úkraínu og hins vegar vegna þess að í lýðræðisþjóðfélagi er rétt að spyrja þjóðina álits um slíka grundvallarákvörðun. Málið er þess eðlis að spyrja þarf þjóðina álits.
Það hefur ríkt mikill samhugur á Alþingi um eindreginn stuðning við málstað Úkraínu, um mikilvægi refsiaðgerða gagnvart Rússlandi og um það að liðsinna eigi fólki í Úkraínu á allan þann hátt sem okkur er unnt. Það þarf jafnframt í kjölfarið að ræða hvaða áhrif hin breytta staða hefur fyrir Evrópu og Ísland.
Allir flokkar eiga þess vegna að sameinast um að fram fari samtal um kosti og galla aðildar að Evrópusambandinu. Það er vont þegar forsætisráðherra talar eins og þetta samtal sé bundið við þingið. Forsætisráðherra hefur tekið sér það hlutverk að reisa girðingu milli þings og þjóðar, með ummælum sínum um að þingmeirihluta þurfi til að þjóðin megi segja sitt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þjóðin ætti með réttu að taka þessa ákvörðun. Þegar rætt er um þjóðarvilja verður að hafa í huga að þar er um að ræða einn kjarna lýðræðishugsjóna okkar.
Samtal um grundvallarhagsmuni
Þegar ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins lagði fram tillögu um að draga aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka í byrjun árs 2014 vakti það gríðarlega hörð viðbrögð almennings í landinu. Það sást ekki síst á því að 53.555 manns skrifuðu undir áskorun þess efnis að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræðurnar. Reiði þjóðarinnar stafaði af því að hún skildi að þarna var ákvörðunarvald um algjört grundvallarmál tekið af henni. Ráðherrar tala um þjóðarviljann sem aðrir kalla einfaldlega lýðræði.
Sterk rök hníga nú að því að Ísland taki afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu vegna nýs veruleika í varnar- og öryggismálum og hlutverks Evrópusambandsins í þeim efnum. Samtal um grundvallarhagsmuni þjóðarinnar verður að fá að fara fram og þjóðaratkvæðagreiðsla er sérstaklega vel til þess fallin að þroska og dýpka umræðuna um stöðu Íslands og hagsmuni landsins gagnvart Evrópusamvinnunni.
Þess vegna er nauðsynlegt að þingsályktunartillagan verði afgreidd svo hægt verði að halda þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir árslok 2022.
Öryggi Evrópu er ógnað
Alþjóðleg samvinna innan Evrópusambandsins, með fullri aðild Íslands, hefur sjaldan átt meira erindi við íslenskt samfélag. Viðbrögð Evrópu allrar við innrás Rússlands í Úkraínu bera þess sterkt merki. Það sjáum við til að mynda á því þegar Evrópusambandið tilkynnti um fyrirhugaða vopnaflutninga til Úkraínu. Það er í fyrsta sinn í sögu sambandsins sem slík ákvörðun er tekin. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði þá ákvörðun marka vatnaskil í baráttunni við Rússland.
Þessar nýju áskoranir færa okkur sannleikann um brýna og sífellt vaxandi þörf lýðræðisþjóða fyrir samvinnu, sem snýr að öryggi og hervörnum en ekki síður að grunngildum þeirra; samvinnu um frelsi, lýðræði, viðskipti og efnahag. Það er af þessari ástæðu að meirihluti Finna er nú í fyrsta sinn hlynntur NATO-aðild. Það er af þessari ástæðu að helmingur Íslendinga er nú hlynntur aðild að Evrópusambandinu en bara þriðjungur andvígur. Hagsmunum fámenns ríkis er best borgið í náinni samvinnu og auknu samstarfi við aðrar Evrópuþjóðir, fremur en að standa fyrir utan.
Evrópusambandið var stofnað svo að ríki þess gætu staðið saman að friði. Nú er þessum gildum ógnað og baráttan fyrir lýðræði, frelsi og friði er hafin. Það mun styrkja fullveldi Íslands en ekki veikja að vera á meðal Evrópusambandsríkja.
Opin umræða um kosti og galla mikilvæg
Breytt heimsmynd hefur framkallað viðhorfsbreytingar hjá þjóðinni. Opin og beinskeytt umræða um pólitíska og efnahagslega stöðu Íslands í Evrópu er okkur öllum mikilvæg. Varnar- og öryggismál munu fá stærra hlutverk í Evrópusamvinnunni vegna innrásarinnar í Úkraínu. Ísland getur styrkt áhrifastöðu sína og eflt rödd sína með því að sækjast eftir sæti við borðið í Evrópu rétt eins og í Atlantshafsbandalaginu. Mikilvægt er að þessi rökræða um breytta heimsmynd og kosti og galla aðildar að Evrópusambandinu fái að fara fram og fái að ljúka með þjóðaratkvæðagreiðslu. Engin skref verða tekin fyrr en þjóðin hefur tekið ákvörðun þar um.