28 apr Af hverju skiptir skipulagið máli?
Hefur þú skoðanir á því hvernig umhverfið í kringum þig og fjölskylduna þína er í bænum? Vissir þú að nú stendur yfir vinna við endurskoðun aðalskipulags Mosfellsbæjar, þar sem verið er að ákveða skipulag bæjarins, þar með talið hvernig umhverfi þitt, verður?
Er það ekki nokkuð eðlileg krafa í nútímasamfélagi að íbúar geti komið að þessu ferli og komið athugasemdum sínum á framfæri áður en búið er að vinna mest alla vinnuna?
Ólíkt núverandi meirihluta teljum við í Viðreisn aðkomu íbúa mikilvæga. Við teljum það mikilvægt að raddir sem flestra heyrist svo að meiri sátt ríki um skipulagið í bænum.
Óánægja með skipulagsmál
Í þjónustukönnun sem Gallup framkvæmir í sveitarfélögum á hverju ári kemur skýrt fram að ánægja með skipulagsmál, almennt í sveitarfélaginu, hefur minnkað marktækt á þessu kjörtímabili. Það fer því ekki á milli mála að hér er verk að vinna og við í Viðreisn viljum breyta þessu.
Undirgöng við Sunnukrika
Við viljum að umhverfið okkar sé öruggt. Þess vegna viljum við skoða umferðaröryggi í bænum alveg sérstaklega.
Eins og margir íbúar hafa sennilega orðið varir við þá eru framkvæmdir hafnar við frárein af Vesturlandsvegi inn í Sunnukrika. Ein fyrirsjáanleg afleiðing þess að beina umferðinni þarna inn í Krikahverfið er meiri umferð fram hjá Nettó til móts við Krikaskóla og yfir gönguleið barnanna í hverfinu á leið í skóla og tómstundir.
Sama hætta er til staðar við Álafossveg þar sem göngustígurinn sem liggur meðfram Vesturlandsveginum fer yfir Álafossveginn, nokkrum metrum frá afrein Vesturlandsvegarins inn í Helgafellshverfið. Á þessum tveimur stöðum þarf að okkar mati að gera undirgöng. Við þurfum ekki að bíða eftir alvarlegu slysi, við getum byrgt brunninn áður en barnið fellur í hann.
Grár miðbær
Helsta einkenni miðbæjar Mosfellsbæjar í dag eru grá torg, gráar götur og grá bílastæði. Það má helst líkja miðbænum okkar við Skeifuna sem ekki getur talist okkur til framdráttar. Við í Viðreisn viljum breyta þessu. Við viljum miðbæ þar sem mannlíf, menning og græn svæði gera umhverfið aðlaðandi og umfram allt þá viljum við byrja á því að hlusta á hvaða hugmyndir bæjarbúa hafa um miðbæinn okkar.
Vesturlandsvegur í stokk
Framtíðarsýn okkar í Viðreisn er að Vesturlandsvegurinn, sem sker bæinn okkar í tvennt, verði lagður í stokk. Við viljum að bærinn verði ein heild. Í stað þjóðvegar sem klýfur Mosfellsbæ kæmi frábært svæði til uppbyggingar til framtíðar og getur styrkt allt umhverfi miðbæjarins til að verða enn líflegri.
Hugmyndir Vegagerðarinnar um framtíð Vesturlandsvegarins í gegnum bæinn okkar er að byggja upp mörg mislæg gatnamót. Þó svo að slíkar framkvæmdir gætu létt á umferðarhnútum á álagstímum þá eru þær ekki til þess fallnar að gera umhverfið fallegra eða minnka mengun, hvað þá að bæta bæinn okkar og gera hann heildstæðari. Við viljum bæta mannlífið í bænum okkar.
Þú getur breytt – Veldu Viðreisn.