19 apr Draugagangur í kerfinu
Daglegt líf er smám saman að færast í eðlilegt horf aftur hér á landi eftir Covid-faraldur síðustu tveggja ára. Allra mest hefur álagið verið á heilbrigðiskerfinu okkar og því fagfólki sem þar starfar og verst var staðan á Landspítalanum. „Ómanneskjulegt álag“ var lýsingin sem gjarnan var notuð á ástandinu. Þar hlýtur fólk að fagna því sérstaklega að vera komið aftur í hefðbundið at hins daglega lífs.
Málið er hins vegar ekki alveg svo einfalt. Til viðbótar við það gríðarlega álag sem Covid hafði í för með sér þá afhjúpaði faraldurinn líka ýmsa veikleika í kerfinu okkar. Að auki leiddi hann til þess að gamlir draugar sem hafa herjað á heilbrigðiskerfið allt of lengi voru látnir óáreittir í myrkrinu. Nú er orðið tímabært að baða draugana ljósi með það fyrir augum að reyna að hrekja þá á brott einn af öðrum.
Mig langar hér að beina athyglinni að varhugaverðri þróun í rannsóknarstarfi Landspítalans. Í nýlegri skýrslu ráðgjafarfyrirtækisins McKinsey um framtíðarþróun þjónustu Landspítala er sýnt fram á vanfjármögnun og vanrækslu við að efla hlut vísinda í starfsemi spítalans, en um er að ræða eitt af lögbundnum hlutverkum hans. Afleiðingarnar eru víðtækar, m.a. glötuð tækifæri til nýsköpunar og bættrar þjónustu við sjúklinga auk þess sem erfitt er að laða vel menntað fagfólk til starfa og halda því í starfi, eins og fram kemur í nýrri ályktun stjórnar Félags prófessora við ríkisháskóla.
Þetta er ekki ný staða. Fyrir fjórum árum spurði ég þáverandi heilbrigðisráðherra út í málið og vísaði annars vegar í tölulegar upplýsingar sem sýndu að Landspítalinn fengi umtalsvert minna fjármagn en sambærilegar stofnanir til rannsókna og hins vegar í yfirlit um vísindalega birtar rannsóknir spítalans sem sýndu að Landspítalinn væri í vaxandi mæli samstarfsaðili sem útvegar gögn en ekki sá aðili sem leiddi. Rannsóknarniðurstöður Landspítalans vektu minni athygli en þær gerðu 10 árum áður og vísbendingar væru um að leiðin lægi enn niður á við. Þáverandi ráðherra viðurkenndi að þetta væri sérstakt áhyggjuefni sem þyrfti að bregðast við.
Heilbrigðisráðherra og ráðherra vísinda, iðnaðar og nýsköpunar þurfa að bregðast þegar í stað við nýjum ábendingum eigin ráðgjafa með því að efla stuðning við vísindahlutverk spítalans. Verði það ekki gert er einfaldlega holur hljómur í metnaðarfullum markmiðum og fallegum loforðum. Það þarf að standa undir ábyrgð með aðgerðum.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. apríl 2022