27 apr Fjárfestum í lýðheilsu og bættum bæjarbrag með innleiðingu hjólreiðaáætlunar fyrir Hafnarfjörð
Árið er 2022 staðsetningin er Hafnarfjörður. Þrátt fyrir tilraunir fulltrúa Viðreisnar í umhverfis og framkvæmdaráði hefur ekki tekist að fá meirihlutann til að innleiða hjólreiðastefnu fyrir Hafnarfjörð. Það er óhætt að segja að það ríki sannkölluð hjólabylting á heimsvísu en því miður þá nær hún ekki til Hafnarfjarðar þar sem hér eru fáir sem engir hjólastígar. Til viðbótar við hjólabyltinguna fjölgar stöðugt smærri rafknúnum farartækjum sem gefa þarf meira rými en þegar er gert í bæjarlandinu.
Sumarið 2021 bókaði fulltrúi Viðreisnar að dapurlegt væri að sjá hvernig vanræksla í uppbyggingu hjólainnviða hefði leitt til þess að Hafnarfjarðarbær hefur dregist langt aftur úr nágrannasveitafélögum. Þrátt fyrir að hafi átt fulltrúa í samstarfshópi á milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og Vegagerðarinnar um þróun samgöngukerfa fyrir hjólreiðar í lok árs 2019, hefur lítið þokast í að bæta eða fjölga stígum í bænum.
Markmið Hjólreiðaáætlunar er að auka hlutdeild þeirra sem velja hjólreiðar sem valkost, til að sinna daglegum erindum eða til að njóta útivistar, og auka þannig valfrelsi íbúa með fjölbreyttari samgöngumáta. Hjólreiðaáætlun þarf því að taka mið af hvernig bæta megi flæði hjólandi umferðar og tryggja um leið öryggi vegfaranda.
Við í Viðreisn viljum stórauka hjólreiðar í bænum og leggjum til að vinna við gerð Hjólreiðaáætlunar fyrir Hafnarfjörð fari af stað strax að loknum kosningum. Sett verði í forgang að auka hjólreiðar innan hverfa þar sem hjólreiðar grunnskólanemenda í skólann væru lykilverkefni. Þá þarf að byggja upp aðgreinda hjólastíga og gera stórátak í kortum og merkingum. Fjárfestingar í hjólainnviðum eru með arðbærustu fjárfestingum sem sveitarfélög geta ráðist í. Ábatinn skilar sér í betri samgöngum, betri lýðheilsu og bættum bæjarbrag.
Meiri lífsgæði, meira valfrelsi, meiri Viðreisn