02 apr Hvers vegna þarf að reisa girðingu milli þings og þjóðar?
Í Svíþjóð fer nú fram mikil pólitísk umræða um breytta heimsmynd í kjölfar árásar Rússlands á Úkraínu, hver áhrifin eru á Svíþjóð og hvernig Svíar geta tryggt öryggi sitt og varnir í kjölfarið. Umræða um Atlantshafsbandalagið er mikil og enginn flokkur talar um að „málið sé ekki á dagskrá“. Þar fer fram opið og beinskeytt samtal sem allir stjórnmálaflokkar taka þátt í. Stjórnmálin nálgast krísuástand af ábyrgð með umræðu um hagsmunamat sænsku þjóðarinnar. Nálgun sem er til fyrirmyndar og um leið nauðsynleg. Viðbrögð ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur við þingsályktunartillögu Viðreisnar, Samfylkingarinnar og Pírata um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort halda skuli áfram aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið hefur verið önnur. Viðbrögð forsætisráðherra bera með sér að hún vilji helst ekki ræða málið og alls ekki við þjóðina. Forsætisráðherrann hefur í raun reist girðingu á milli þings og þjóðar með ummælum um að þingmeirihluta þurfi til að þjóðin megi segja sitt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það hefur fjármálaráðherra einnig gert með ummælum um að þjóðaratkvæðagreiðslur geti verið tóm vandræði. Utanríkisráðherra sagði svo um liðna helgi að þetta með þjóðaratkvæðagreiðslur væri vandmeðfarið. Hvers vegna ætli viðbrögð ráðherranna séu á þessa leið? Hvað er svona hættulegt við umræðu um hvernig hagsmunir Íslands eru best tryggðir?
Stjórnmálaflokka að leiða samtalið
Það hefur ríkt mikill samhugur á Alþingi um eindreginn stuðning við málstað Úkraínu, um mikilvægi refsiaðgerða gagnvart Rússlandi og um það að liðsinna eigi fólki í Úkraínu á allan þann hátt sem okkur er unnt. Í kjölfar þarf jafnframt að ræða hvaða áhrif hin breytta staða hefur fyrir Evrópu og Ísland. Allir flokkar ættu þess vegna að sameinast um að fram fari samtal um kosti og galla aðildar að Evrópusambandinu. Stjórnmálamenn mega ekki hræðast efnislega umræðu um þetta mál. Af þeirri umræðu sem nú fer fram í ríkjunum í kringum okkur má sjá að flokkarnir líta allir á það sem hlutverk sitt að taka þátt í umræðu um stöðuna og viðbrögð við henni, óháð því hver afstaða þeirra er.
Þjóðaratkvæðagreiðsla og umræða í aðdraganda hennar er frábær leið til að þroska samtalið um stöðu Íslands og hagsmuni landsins gagnvart Evrópusamvinnunni. Þessu samtali ættu allir stjórnmálaflokkar að fagna en ekki að hlaupa frá umræðunni.
Er betra að eiga engan fulltrúa?
Alþjóðleg samvinna innan Evrópusambandsins, með fullri aðild Íslands, hefur sjaldan átt meira erindi við íslenskt samfélag. Viðbrögð Evrópu allrar við innrás Rússlands í Úkraínu bera þess sterkt merki. Það sjáum við til dæmis á því þegar Evrópusambandið tilkynnti um fyrirhugaða vopnaflutninga til Úkraínu. Sú ákvörðun er söguleg af hálfu sambandsins.
Við okkur blasir vaxandi þörf lýðræðisþjóða fyrir samvinnu, sem snýr að öryggi og vörnum en ekki síður að grunngildum þeirra; samvinnu um frið, frelsi, lýðræði, viðskipti og efnahag. Það er af þessari ástæðu að meirihluti Finna er nú í fyrsta sinn hlynntur NATO-aðild. Finnska þjóðin upplifir réttilega að heimsmyndin er breytt. Það er af þessari ástæðu að helmingur Íslendinga er nú hlynntur aðild að Evrópusambandinu en aðeins um þriðjungur er andvígur. Breytt heimsmynd hefur leitt til viðhorfsbreytingar hjá þjóðinni.
Evrópusambandið var stofnað til að ríki gætu staðið saman að friði. Nú þegar þessum gildum ógnað er barátta fyrir lýðræði, frelsi og friði hafin. Það mun styrkja fullveldi Íslands en ekki veikja að vera á meðal Evrópusambandsríkja. Hagsmunum fámenns ríkis er best borgið í náinni samvinnu og auknu samstarfi við aðrar Evrópuþjóðir, fremur en að standa fyrir utan.
Þjóðin eigi lokaorðið
Umræða um pólitíska og efnahagslega stöðu Íslands í Evrópu er bæði mikilvæg og nauðsynleg. Sterk rök hníga nú að því að almenningur taki afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu ekki síst vegna nýs veruleika í varnar- og öryggismálum og hlutverks Evrópusambandsins í þeim efnum. Ísland getur styrkt áhrifastöðu sína með því að sækjast eftir sæti við borðið í Evrópu rétt eins og í Atlantshafsbandalaginu. Mikilvægt er að þessi rökræða um áhrif breyttrar heimsmyndar sem og um kosti og galla aðildar að Evrópusambandinu fái að fara fram og að henni ljúki með þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald aðildarviðræðna. Engin skref verða tekin fyrr en þjóðin hefur tekið ákvörðun þar um. Hagsmunirnir eru einfaldlega þess eðlis að það er þjóðarinnar að taka ákvörðun um næstu skref.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. apríl 2022