Innihald eða ímynd

Þorsteinn Pálsson

Ímynd stjórnmálamanna í fjölmiðlum er ekki alltaf í beinu samhengi við verkin og veruleikann. Jón Gunnarsson fékk til að mynda sérlega óblíðar móttökur í fjölmiðlum þegar hann tók við embætti dómsmálaráðherra. Á hinn bóginn hafa fáir ráðherrar verið hafnir jafn mikið upp til skýjanna eins og Ásmundur Einar Daðason barnamálaráðherra. Upphafning hans skilaði Framsókn fimm nýjum þingmönnum.

Komið sumum gagnrýnendum á óvart

Þegar Jón Gunnarsson var samgönguráðherra árið 2017 var hann athafnasamasti ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Í því ljósi vakti það athygli að þingflokkur Sjálfstæðismanna skyldi fyrir fram takmarka ráðherrasetu hans nú við átján mánuði. Hann hefur á stuttum tíma í dómsmálaráðuneytinu sýnt að hann kann enn að láta hendur standa fram úr ermum. Það kemur ef til vill ekki á óvart.

En hitt hygg ég að hafi komið sumum gagnrýnendum ráðherrans á óvart hvernig hann hefur tekið á nokkrum þeirra erfiðu og viðkvæmu mála, sem heyra undir dómsmálaráðuneytið. Það breytir þó ekki því að menn finna þar enn pólitísk ágreiningsefni eins og umræður um útlendingafrumvarpið sýna.

Róttæk umbótatillaga

En tilefni þessarar upprifjunar er að dómsmálaráðherra kynnti nýlega athyglisverð kerfisbreytingaáform. Markmið þeirra er að bæta þjónustu og einfalda kerfið. Einföldunin felst í því að nýta tæknibreytingar til þess að sameina sýslumannsembætti og fækka sýslumönnum niður í einn.

Sýslumannsembættum hefur verið fækkað áður, en hér er ráðgert að stíga róttækt skref. Það er þarft og tímabært. Og við blasir að ganga má enn lengra á málasviði ráðuneytisins því að tími er kominn til að fækka lögreglustjórum og gera Ísland að einu lögregluumdæmi og styrkja þannig lögregluna um land allt.

Vandi ráðherrans er sá að róttæk uppstokkun í rótgrónu kerfi vekur jafnan andstöðu. Þeir sem vilja aðeins sigla sléttan sjó koma sér því gjarnan hjá því að taka á málum með þessum hætti. Því fremur er ástæða til að gefa því gaum þegar ráðherra áræðir að beita upp í vindinn til þess að ná mikilvægu markmiði.

Biðlistar og tóm loforð

Ásmundur Einar Daðason hefur nú verið ráðherra barnamála í hartnær fimm ár. Þegar hann tók við embætti brunnu barnabiðlistarnir heitast á ráðuneyti hans. Þar er um að ræða lista yfir börn sem bíða eftir þjónustu í félagslega kerfinu og heilbrigðiskerfinu.

Á bráðum fimm ára valdatíma hefur það eitt gerst í þessum efnum að biðlistarnir hafa lengst. Þó að hann hafi endurskoðað lög um málefni barna er árangursleysi hans í biðlistamálunum sennilega sneggsti bletturinn á núverandi ríkisstjórn.

Ný ríkisfjármálaáætlun bendir svo til að hann muni á endanum skjóta þunga barnabiðlistavandans yfir á næstu ríkisstjórn.

Enginn ráðherra hefur gengið lengra en Ásmundur Einar Daðason í því að lofa fjármunum til þess að byggja nýjan þjóðarleikvang fyrir fótboltann og annan fyrir handboltann. Í fjármálaáætlun blasir við að næstu ríkisstjórn er ætlað að leysa þau mál.

Óskammfeilni

Þessi samanburður milli tveggja ráðherra er áhugaverður. En hitt sýnir hversu óskammfeilin pólitíkin getur stundum verið að þingmenn Framsóknar hafa gengið fram fyrir skjöldu til þess að rífa hagræðingar- og umbótaáform dómsmálaráðherrans niður. Það verður því ekki léttur leikur fyrir Jón Gunnarsson að ná þessum skipulagsbreytingum fram.

En það eru ekki bara Framsóknarmenn sem ætla að bregða fæti fyrir tillöguna um fækkun sýslumanna. Áhrifamesti talsmaður íhaldsarmsins í Sjálfstæðisflokknum andmælti á dögunum í Morgunblaðinu kerfisbreytingar­áformum dómsmálaráðherrans og harmaði um leið að hreppstjórar skuli ekki enn vera virkur hluti af stjórnsýslu ríkisins.

Prófsteinn

Sú glíma, sem Jón Gunnarsson þarf að stíga á næstunni við þingmenn Framsóknar og íhaldsarminn í eigin flokki, verður líka alvöru prófsteinn á fjármálaráðherra.

Sættir hann sig við að dómsmálaráðherrann þurfi að lúta í lægra haldi loksins þegar raunhæfar tillögur um hagræðingu og bætta þjónustu með skipulagsbreytingum koma fram eftir fimm ára setu ríkisstjórnarinnar?

Spurningin er um innihald eða ímynd. Svo virðist sem margir vilji sjá dómsmálaráðherrann lenda í sömu sporum og barnamálaráðherrann með biðlistana.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 7. apríl 2022