19 apr Ný reiðhöll Sörla er mikilvæg innviðauppbygging á sérstöðu Hafnarfjarðar
Af hverju mun vinnandi fólk í Reykjavík velja sér Hafnarfjörð sem heimahaga á næstu árum? Það er mikilvægt að átta sig á sérstöðu Hafnarjarðar og fjárfesta í henni. Hafnarfjörður er þorp úti á landi örstutt frá Reykjavík þar sem stutt er í friðsæla og fallega náttúru. Því er það helst fólk sem er tilbúið til að verja lengri tíma í að ferðast til og frá vinnu en geta stokkið út í friðsældina á fimm mínútum, sem mun helst horfa til Hafnarfjarðar á næstu árum.
Hestafólk er augljós hópur sem metur það mikils að geta stokkið út í hesthús og farið á bak með litlum fyrirvara. Það er því mikilvægt þegar kemur að markaðssetningu bæjarins að fjárfesta í innviðum sem þessir markhópar horfa til við val á búsetu.
Reiðstígar, hjólastígar og göngustígar í upplandi Hafnarfjarðar eru því mikilvæg innviðafjárfesting. Því miður höfum við ekki staðið okkur sem skildi á þessu sviði og gera þarf sannkallaða gangskör í þessum málum þannig að allir Hafnfirðingar geti notið upplandsins með sínum hætti.
Það er mikilvægt að koma aðstöðu hestamannafélagsins Sörla á þann stað að sómi sé að. Ný reiðhöll mun gerbreyta aðstöðu hestamanna í Hafnarfirði og laða til bæjarins hestafólk úr öðrum sveitarfélögum.
Viðreisn telur mikilvægt að fjárfesta í sérstöðu Hafnarfjarðar. Því miður virðist þróunin í skipulagsmálum Hafnarfjarðar stefna í þá átt að gera Hafnarfjörð að úthverfi Reykjavíkur. Það mun ekki gerast á vakt Viðreisnar.
Meiri bæjarbrag, meiri lífsgæði, meiri Viðreisn.