Sveitarstjórnarmál sem ólympíugrein

Sveitarstjórnarkosningar eru líkt og Ólympíuleikarnir haldnar fjórða hvert ár. Kannski eru þessir viðburðir ekki svo ólíkir. Órjúfanlegur hluti af þeim báðum er keppni þar sem einstaklingar og lið etja kappi og einhverjir standa uppi sem sigurvegarar og aðrir með sárt ennið. En ef kosningar til sveitarstjórnar yrðu fullgild ólympíuíþrótt er gaman að ímynda sér hvaða þættir geta ráðið því hver stendur uppi með gullið.

Fólkið

Það sem skiptir hvað mestu máli eru einstaklingarnir sem eru í framboði. Listarnir eru auðvitað mannana verk og ekki betri eða verri en nöfnin sem eru á þeim. Þetta á sérstaklega við í bæjarstjórnarkosningum líkt og í Mosfellsbæ þar sem aðeins eru ellefu fulltrúar í bæjarstjórn og vægi hvers því talsvert. Því ætti kjósandinn að spyrja sig hvaða einstaklinga þau vilja sjá með gullmedalíu um hálsinn og takast á við þá ábyrgð sem fylgir að stjórna sveitarfélagi með heiðarleikann að leiðarljósi.  

Málefnin

Þá skipta málefnin auðvitað miklu máli en í þeim felast ákvarðanatökur sem geta haft veruleg áhrif á íbúa sveitarfélagsins. Þau eru jafn mörg og þau eru ólík en þess þarf að gæta að gullið má ekki vera of dýru verði keypt. Má þá benda á mikilvægi þess að sýna ábyrgð í fjármálum sveitarfélaga og umgangast fjármuni almennings af virðingu. Einng eru umhverfismál eitt af stóru viðfangsefnum dagsins í dag og því er stefna sveitarfélaga í þeim málaflokki gríðarlega mikilvæg. Því þarf að hafa umhverfismál í huga við stefnumótun og ákvarðanatöku sveitarfélaga með það að markmiði að sporna við hlýnun jarða og gæta að umhverfinu.

Hugsjónin

Þá er ákveðin pólitísk hugsjón á bak við stjórnmálasamtök sem endurspeglast í ólíkum markmiðum stjórnmálaflokkanna.  Þessar pólitísku hugsjónir hafa áhrif á stjórnmálasamtök hvort sem það er á sveitarstjórnarstigi eða í landsmálunum. Því er ekki hægt að skilja á milli landsmála og sveitarstjórnarmála að öllu leyti. Þetta hefur í för með sér að stuðningur við ákveðin stjórnmálasamtök á sveitarstjórnarstigi, rennir styrkari stoðum undir þau á landsvísu og þá vegferð sem þau eru á, t.d. hvaða hagsmuni þau eru að berjast fyrir. 

Það sem er samt best við þessa Ólympíuleika er að þú lesandi góður ert sá sem ræður úrslitum. Viðreisn setur almannahagsmuni framar sérhagsmunum. Þú getur breytt því sem þú vilt.
Veldu Viðreisn.

 

Greinin birtist fyrst í Mosfelling 28. apríl 2022