05 maí Fórnarkostnaðurinn
Íviðtali við Ríkisútvarpið fyrir réttri viku sagði Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra að traust forsætisráðherra á fjármálaráðherra myndi koma ríkisstjórninni í gegnum bankasölustríðið.
Þarna hitti matvælaráðherra naglann á höfuðið. Eina leiðin fyrir forsætisráðherra til að halda stjórninni saman í þessari krísu var að víkja til hliðar pólitískum gildum og lýsa yfir skilyrðislausu trausti.
Ótakmarkað traust án tengsla við pólitísk gildi mun tryggja framhald stjórnarsamstarfsins. Hin hliðin á því dæmi er fórnarkostnaðurinn.
Formenn í bjarghring forsætisráðherra
Engum vafa er undirorpið að í byrjun fórnar VG málefnalega miklu með þessum leik um traust án skilyrða. Ástæðan er sú að þær ákvarðanir, sem ríkisstjórnin tók sjálf um söluaðferðina, eru lengst frá pólitískri ímynd VG.
Hitt er að með þessu hefur formaður VG treyst áhrifavald sitt. Málefnaleg sérstaða hefur gufað upp eins og sakir standa. En taflstaðan gagnvart samstarfsflokkunum er sterkari í framhaldinu.
Á skömmum tíma hefur forsætisráðherra kastað bjarghring til beggja leiðtoga samstarfsflokkanna í tveimur aðskildum málum. Tilvera þeirra í ríkisstjórn byggist því um sinn á náð hennar.
Enginn veit í hversu ríkum mæli formaður VG mun nýta sér þessi undirtök. En möguleikinn liggur á borðinu. Að sama skapi hafa málefnaleg tök samstarfsflokkanna veikst.
Stærsta málið út af borðinu
Sala á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka og Landsbanka var langsamlega stærsta málið á verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar. Að auki var það eina kerfisbreytingin, sem stjórnarflokkarnir gátu sammælst um.
Bankasalan var svo eina sérmál Sjálfstæðisflokksins. Pólitískt mikilvægi hennar var því mest fyrir hann.
Nú hefur VG ýtt þessu eina stóra máli stærsta flokksins út af borðinu. Það er gert með móðurlegum orðum um að það verði ekki tekið aftur upp á borðið fyrr en búið er að endurvinna glatað traust.
Þetta þýðir að það ákvæði í stjórnarsáttmálanum sem tryggði að fjármálaráðherra gæti lokið bankasölunni í áföngum, er óvirkt. Framhaldið er alfarið komið undir mati formanns VG.
Þetta er fyrsta dæmið um það hvernig VG hefur styrkt málefnastöðu sína með björguninni. Og samstarfsflokkurinn sættir sig við undanhaldið.
Beðið eftir vinnumarkaðnum
Ríkisfjármálin eru veigamesta ímyndarmál Sjálfstæðisflokksins. Ríkisstjórnin var komin í vörn á þessu sviði fyrir bankasölustríðið.
Í vetur sem leið sagði Viðskiptaráð að ríkisfjármálastefnan kynti undir verðbólgu og Samtök atvinnulífsins sögðu að ríkisstjórnin væri að flytja skuldavandann yfir á næstu ríkisstjórn.
Þyngst er nýleg gagnrýni fjármálaráðs, sem telur að fjármálaáætlunin feli áfram í sér kerfislægan stöðugt vaxandi halla umfram skuldavandann, sem faraldurinn leiddi til.
Þessir dómar varpa ljósi á þann pólitíska veruleika að ríkisstjórnin hefur enga efnahagspólitík. Hún bíður nú eftir því að aðilar vinnumarkaðarins komi fram með tillögur. (Bara að það endi ekki eins og biðin eftir Godot.)
Efnahagspólitíkin til vinstri
Vandinn er að kjarasamningar geta dregist fram á næsta ár vegna innbyrðis átaka í verkalýðshreyfingunni. Það seinkar kauphækkunum og væntanlega líka stefnumótun vinnumarkaðarins í efnahagsmálum.
Vilji forsætisráðherra nýta sér það að hafa bjargað leiðtogum beggja samstarfsflokkanna á hún þann leik á borði að taka stöðu með væntanlegum útgjaldakröfum ASÍ og sveigja efnahagsstefnuna lengra til vinstri í viðræðum við aðila vinnumarkaðarins.
Að réttu lagi ætti hins vegar ekki að bíða heldur taka tafarlaust mark á ábendingum fjármálaráðs til þess að styrkja samkeppnishæfni Íslands og stefna að stöðugleika fyrir fólk og fyrirtæki. Tal í þá veru verður ekki trúverðugt rétt fyrir kosningar eftir þrjú ár.
Peð fyrir hrók
Þessi dæmi sýna að tvö helstu ímyndarmál Sjálfstæðisflokksins verða í uppnámi út kjörtímabilið. Menn losa ekki þann gaffal með því að leggja niður Bankasýsluna.
Stærsti flokkurinn í stjórnarsamstarfinu er þannig kominn í málefnalega bóndabeygju minnsta flokksins. Það er öfugsnúið, en er einfaldlega fórnarkostnaður fyrir björgunina.
Framsókn er í opnari stöðu. Hún hefur enga sjálfstæða skoðun á því hvort efnahagsstefnan sveigist til hægri eða vinstri. Björgunin hefur því málefnalega minni áhrif á hana.
Í taflinu um völd og málefni fórnaði VG peði fyrir hrók. Það þyngir endatafl kjörtímabilsins fyrir Sjálfstæðisflokkinn.