Frí­stunda­bílinn fram og til baka

Í dag geta börn í Garðabæ tekið frístundabíl frá frístundaheimilum grunnskólanna í íþrótta- og tómstundastarf. Þetta einfaldar skipulag fyrir foreldra sem annars þyrftu að skutla börnum hingað og þangað um bæinn. Börnin komast þá á auðveldan og öruggan hátt í sínar tómstundir.

Ekki er hægt að segja að þjónustan sé eins góð eftir að tómstundum líkur. Margir foreldrar keppast við að klára verkefnin í vinnunni til þess að geta rokið út og sótt börnin. Bílastæðin við frístundir og íþróttahúsin fyllast, hlaupandi börn og kallandi foreldrar. Nokkuð svipað og í réttum á haustin þegar ærnar jarma og kalla á lömbin sín, svona fyrir þau sem kjósa myndlíkingu.

Bætum þjónustuna

Hægt væri að þjónusta fjölskyldur betur með því að gera frístundabílinn skilvirkari. Hægt væri að keyra börnum aftur í skólann eftir æfingar og börnin gengið þaðan heim. Einnig væri hægt að fjölga stoppustöðvum þannig að börnin gætu farið úr bílnum nær heimili sínu. Þetta auðveldar ekki bara barnafjölskyldum lífið heldur myndi þessi lausn fækka bílferðum foreldra, minnka vesen og saman værum við að draga úr mengun sem kemur frá útblæstri bíla.

Við í Viðreisn viljum að börn í Garðabæ komist örugg í íþróttir og tómstundir. Við viljum líka að þau komist aftur heim og við höfum raunverulegt val í þeim efnum

Höfundur er verkefnastjóri og skipar 5. sæti á lista Viðreisnar í Garðabæ.

Greinin birtist fyrst á Vísi 2. maí 2022