14 maí Heilbrigðistúrismi í boði stjórnvalda
Yfirlýst markmið er að heilbrigðiskerfið okkar virki þannig að 80% einstaklinga komist í aðgerðir innan 90 daga frá greiningu. Þetta er samkvæmt viðmiðunarmörkum embættis landlæknis um hvað getur talist ásættanleg bið eftir heilbrigðisþjónustu. Ég er hrædd um að þetta hljómi eins og lélegt grín í eyrum þeirra fjölmörgu sem hafa setið föst á biðlistum mánuðum og jafnvel árum saman eftir tilteknum úrræðum.
Ég hef skrifað hér áður um þá sturluðu stöðu að í okkar ríka samfélagi bíði hátt í tvö þúsund börn á biðlistum eftir þjónustu í heilbrigðiskerfinu og hjá félagsmálastofnunum. Meðalbiðtíminn er frá einu og upp í tvö ár eftir þeirri þjónustu sem um ræðir.
Það er líka dapurleg staðreynd að fullorðið fólk bíður svo mánuðum og jafnvel árum skiptir eftir bót meina sinna. Ég hef spurt hvernig ríkisstjórnin vilji leysa þessi mál. Hvort leggja eigi áherslu á að ná samningum við sérfræðilækna? Við sjúkraþjálfara, talmeinafræðinga og sálfræðinga? Hvort eigi að tryggja að þúsundir barna eyði ekki stórum hluta æskunnar á biðlistum? Við bíðum enn eftir svörum. Fólk bíður enn eftir aðgerðum.
Ein sérkennilegasta birtingarmynd þessarar stöðu er sá heilbrigðistúrismi sem stundaður er í nafni stjórnvalda þar sem fjöldi fólks er fluttur í aðgerðir utan landsteinanna þegar biðin er orðin of löng hér heima. Þessi útflutningur á sér stað í vaxandi mæli í liðskiptaaðgerðum, efnaskiptaaðgerðum og aðgerðum vegna endómetríósu þó að hér á landi séu sérfræðingar sem geta sinnt þessari þjónustu. Mótstaða ríkisstjórnarinnar er ekki til komin vegna þess að það skorti á þekkingu, færni eða aðstöðu sem þessir aðilar geta boðið. Mótstaðan er heldur ekki til komin vegna þess að það sé ódýrara að flytja fólk í aðgerðir til útlanda. Nei, útflutningur á fólki í aðgerðir erlendis, sem í þokkabót eru mun dýrari lausnir, er vaxandi atvinnugrein vegna þess að ríkisstjórnin vill ekki semja við íslenska einkaaðila. Einhverra hluta vegna er sama mótstaða ekki fyrir hendi þegar kemur að því að borga erlendum einkaaðilum fyrir þessar sömu aðgerðir.
Hvernig stendur á þessari vitleysu? Í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn um þessi mál fyrr á árinu kom fram að það væri mikilvægt að allar ákvarðanir um það hver sinnti hvaða hluta heilbrigðisþjónustunnar væru teknar með tilliti til heilbrigðiskerfisins í heild. Ég get alveg tekið undir þau orð. En það sér hvert mannsbarn að ríkisstjórnin er komin út í horn ef hún getur ekki uppfyllt þetta skilyrði og um leið svarað aðkallandi þörf fólks fyrir mikilvæga heilbrigðisþjónustu. Eitthvað þarf að breytast, því þetta gengur einfaldlega ekki svona lengur!
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. maí 2022