Hið risavaxna kolefnisspor íbúa sveitarfélaga

Á hinum ágæta vef Kolefn­is­reikn­ir.is má sjá að hið neyslu­drifna kolefn­is­spor Íslend­ings er 12 tonn á mann. Það er áhyggju­efni í ljósi þess að mark­mið alþjóða­sam­fé­lags­ins er að reyna að halda hlýnun jarð­ar­innar innan við 1.5°C. Til að það tak­ist verður heims­byggðin að draga úr núver­andi losun gróð­ur­húsa­loft­teg­unda um helm­ing fyrir árið 2030. Við Íslend­ingar erum langt yfir með­al­tali þegar kemur að losun gróð­ur­húsa­loft­teg­unda en við, eins og aðrir jarð­ar­bú­ar, þurfum að minnka okkar losun niður í 4 tonn.

Sum sveit­ar­fé­lög hafa sett sér metn­að­ar­fulla lofts­lagstefnu og á sam­starfs­vett­vangi sveit­ar­fé­lag­anna er unnið ágætt starf eins og varð­andi sam­göngu­mál og skipu­lag sorp­mála.

En betur má ef duga skal ef halda eigi hlýnun jarð­ar­innar innan við 1,5°. Til að minnka hið neyslu­drifna kolefn­is­spor er gagn­legt að ein­blína á þrjú atriði, sem eru ferð­ir, matur og neysla.

1. Skipu­lag sam­gangna og orku­skipti

Sveit­ar­fé­lögin geta lagt hvað mest af mörkum til að draga úr kolefn­islosun frá sam­göngum með því að huga að skipu­lagi almenn­ings­sam­gangna, skipu­lagi hverfa og innviðum sem styðja við aðra ferða­máta eins og að hjóla og ganga. Mik­il­vægi Borg­ar­lín­unnar til að auð­velda greiðar opin­berar sam­göngur og áhersla á þétt­ingu byggðar er nokkuð aug­ljóst. Orku­skiptin úr jarð­efna­elds­neyt­inu yfir í raf­magn, metan eða vetni verða einnig að ger­ast hratt.

2. Velja mat með lítið kolefn­is­spor og draga úr sóun

Kolefn­isporið af matnum sem við inn­byrðum er mjög stórt og vegur þar þungt neysla á rauðu kjöti sem ber höfuð og herðar yfir alla aðra mat­ar­flokka. Hinn dæmi­gerði Íslend­ingur borðar sem nemur 85 kíló af kjöti á ári sem er álíka og í Kanada og Bras­ilíu en ráð­lagður skammtur af rauðu kjöti er 26 kíló á ári. Draga þarf úr neyslu dýra­af­urða og fylgja má for­dæmi yfir­valda margra landa sem bjóða ekki upp á kjöt­vörur í opin­berum veisl­u­m.

Matarsóun á Íslandi er einnig gríð­ar­leg en sam­kvæmt tölum Umhverf­is­stofn­unar hendir hver ein­stak­lingur um 90 kílóum af mat á ári. Ljóst er að við þurfum að gera bet­ur.
Sveit­ar­fé­lög gætu tekið stór skref í þessa átt, t.d. með því að gera kolefn­is­sporið af matnum sem fólk neyt­ir, t.d. í mötu­neyt­um, sýni­leg­t.

3. Velja ábyrgar vörur og gæta hófs í neyslu

Neysla Íslend­inga er mikil og flest kaupum við meira en við þurfum og hendum meira en þarf. Vanda­málið liggur að hluta til í þeim vörum sem við kaupum því sumar vörur hafa gríð­ar­lega hátt kolefn­is­spor. Sem dæmi um neyslu sem er ekki sjálf­bær er að 60% af þeim fatn­aði sem við kaupum er hent innan árs. Með­al­ein­stak­lingur kaupir um 60% meira af fatn­aði í dag en fyrir 10 árum síð­an. Við gætum einnig leigt frekar en keypt ýmis verk­færi og bún­að. Af hverju ættu t.d. allir að eiga garð­sláttu­vél eða háþrýsti­dælu? Betra væri að leigja slík tæki þá fáu daga á ári sem við notum þau.

Sveit­ar­fé­lögin gætu tekið að sér leið­andi hlut­verk

Það sem sveit­ar­fé­lögin gætu gert er að fara í átak í anda verk­efnis sem ríkið hefur unnið eftir með góðum árangri og heitir Græn skref í rík­is­rekstri. Þá er farið kerf­is­bundið í gegnum atriði eins og inn­kaup, flokk­un, ferðir og orku­notkun og hvernig hægt er að draga úr losun á kerf­is­bund­inn hátt. ­Með lít­illi aðlögun væri hægt að sníða verk­efnið að íbú­um, fjöl­skyldum og fyr­ir­tækjum og veita þeim jákvæðan stuðn­ing til að fara í það verk­efni. Það væri stórt skref í rétta átt að sveit­ar­fé­lögin tækju að sér leið­andi hlut­verk í að draga úr neyslu­spor­inu, t.d. með því að ráða aðila sem fengi það hlut­verk að aðstoða ein­stak­linga, heim­ili og fyr­ir­tæki við að draga úr kolefn­is­spor­inu og gera lífs­stíl­inn sjálf­bær­ari. Í mínu sveit­ar­fé­lagi sem er Garða­bær er sam­an­lagt kolefn­is­spor allra íbúa sam­bæri­legt við losun gróð­ur­húsa­loft­teg­unda frá rúm­lega 106.000 bif­reiðum sem aka á jarð­efna­elds­neyti. Það er allt of mikið og á kostnað fram­tíð­ar­inn­ar.

Höf­undur er í fram­boði fyrir Við­reisn til sveit­ar­stjórnar í Garða­bæ.

Greinin birtist fyrst á Vísi 3. maí 2022