05 maí Hundrað milljarða klúður
Það munar um 100 milljarða. Um það getum við öll verið sammála. Það munar um þann pening í úrbætur í heilbrigðiskerfinu. Það munar um biðlistana sem hægt væri að stytta; liðskiptaaðgerðir og augasteinaaðgerðir. Kransæðaaðgerðir og aðgerðir á hjartalokum. Brjóstnám, offituaðgerðir og gallsteinaaðgerðir. Svo dæmi séu tekin.
Það munar um alvöru innspýtingu í fjársvelta geðheilbrigðisþjónustu, um niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu. Um styttri biðlista eftir sjúkraþjálfun og eftir talmeinaþjónustu. Það munar um ný hjúkrunarheimili. Það munar um betri þjónustu við börn og styttri biðlista eftir fjölþættum úrræðum þar. Svo fleiri dæmi séu tekin.
Það munar um samgönguúrbætur sem hægt væri að tryggja, um brýr, jarðgöng og Sundabraut. Um alvöru framkvæmdir við Borgarlínu. Það munar um nýjan þjóðarleikvang. Það munar um aukinn kraft í loftslagsmálin. Svo enn fleiri dæmi séu tekin.
Það munar sem sagt um 100 milljarðana sem ríkisstjórnin klúðraði. 100 milljarðana sem áttu að renna í ríkissjóð á næsta ári eftir sölu á þriðja og síðasta hlut ríkisins í Íslandsbanka. Eftir klúðrið á sölu annars áfanga hefur ríkisstjórnin gefið frekari sölu á hlut í bankanum upp á bátinn. Það liggur þá fyrir að báknið á fjármálamarkaði verður ekki minnkað á kjörtímabilinu. Og 100 milljarðarnir munu liggja þar inni ónýttir.
Þetta bakslag er í sjálfu sér eðlilegt. Kannski jafnvel þakkarvert að ríkisstjórnin geri sér grein fyrir því að hún ræður ekki við verkefnið. En mikið fjári er það dýrkeypt. Það vantar betri einkavæðara, sagði félagi minn Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar, í beittri grein í Viðskiptablaðinu í liðinni viku. Það er hverju orði sannara. Viðreisn hefur alla tíð talað fyrir mikilvægi þess að virkja krafta einkaframtaksins. Við studdum söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Forsenda þess stuðnings var að salan yrði á grundvelli almannahagsmuna með gegnsæi, jafnræði og traust í fyrirrúmi. Svo varð ekki í meðförum ríkisstjórnarinnar eins og þekkt er. Það skiptir máli hverjir stjórna og í þágu hverra.