Mis­góð fjár­mála­stjórn

Þorsteinn Pálsson

Undir lok síðasta árs var til­finning margra sú að borgar­stjórnar­meiri­hlutinn sigldi mót­byr inn í kosninga­bar­áttuna. Nú sjást aftur á móti vís­bendingar um að hann geti haldið velli á laugar­daginn.

Meiri­hlutinn gerði sátt­mála við ríkis­stjórnina um helsta stefnu­mál sitt um al­mennings­sam­göngur, sem eru hin hliðin á stefnu hans um þéttari, hag­kvæmari og um­hverfis­vænni byggð.

Stærsti minni­hluta­flokkurinn í borgar­stjórn fer með fjár­málin í ríkis­stjórn og stýrir þaðan sér­stöku fé­lagi, sem sér um fram­kvæmd á sam­göngu­stefnu meiri­hlutans í borgar­stjórn.

Meiri­hlutinn og stærsti minni­hluta­flokkurinn í borgar­stjórn eru því í banda­lagi um stóru línurnar í borgar­pólitíkinni.

And­svar frá Sel­fossi

And­byr meiri­hlutans átti fyrst og fremst rætur að rekja til afar harðrar gagn­rýni á fjár­mála­stjórn borgarinnar. Sú gagn­rýni byggðist á tal­punktum, sem menn fengu með lestri Morgun­blaðsins.

Niður­staða tal­punktanna var sú að ó­ráð­sía og skulda­söfnun ein­kenndu fjár­mála­stjórn Reykja­víkur og greiðslu­þrot væri fyrir­sjáan­legt.

Borgar­stjóri virðist vera meira fyrir að gera sátt­mála við and­stæðinga sína en að munn­höggvast við þá. Það kann að vera á­stæðan fyrir því að margir voru farnir að trúa því að tal­punktarnir hermdu rétta sögu.

Þá flaug vel metnum og reyndum fyrr­verandi sveitar­stjórnar­manni austur á Sel­fossi, Þor­varði Hjalta­syni, í hug að fletta upp í hag­tölum á vef Sam­bands ís­lenskra sveitar­fé­laga. Hann birti niður­stöðu þeirrar skoðunar í grein á vef­ritinu Kjarnanum.

Grannarnir lakari en Reykja­vík

Tölurnar í and­svarinu frá Sel­fossi sögðu allt aðra sögu en tal­punktarnir úr Há­degis­móum.

Í saman­burði við sveitar­fé­lögin fimm um­hverfis Reykja­vík var hlut­fall skulda af tekjum lægst í höfuð­borginni. Skuldir á hvern íbúa voru lægstar í Reykja­vík. Og hlut­fall veltu­fjár var sterkast í Reykja­vík.

Þessar niður­stöður segja hins vegar fátt um það hvort borgar­stjóri og for­maður borgar­ráðs séu góðir fjár­mála­stjórn­endur. Þær segja bara að þau hafi náð betri árangri en allir bæjar­stjórarnir í ná­granna­bæjunum. Eða hitt: Bæjar­stjórarnir fimm eru lakari en stjórn­endur Reykja­víkur.

Hlé­drægni

Ég minnist þess ekki á síðari árum að kosninga­mál eins og fyrir­sjáan­legt greiðslu­þrot Reykja­víkur­borgar hafi verið blásið jafn mikið upp og svo orðið að tómri blöðru í einni svipan. Það mál, sem sýndist ætla að verða borgar­stjórnar­meiri­hlutanum mót­drægt, er ekki nefnt á nafn á loka­metrum kosninga­bar­áttunnar.

Leið­togi stærsta minni­hluta­flokksins í borgar­stjórn sneri hesti sínum við í miðju straum­vatni próf­kjörs­bar­áttunnar og hætti við fram­boð. Nýi leið­toginn á­kvað svo að mæta ekki á borgar­stjórnar­fundi þrjá síðustu mánuði kjör­tíma­bilsins.

Sann­færandi skýringar hafa ekki verið gefnar á þessari hlé­drægni. En nær­lægt er að ætla að þau hafi þá þegar séð að tal­punktarnir geymdu ekki fóður í sterkt kosninga­mál.

Vextir og verð­bólga

Hér eins og í flestum öðrum löndum hafa lands­málin jafnan nokkuð að segja í sveitar­stjórnar­kosningum.

Banka­salan og mál, sem inn­viða­ráð­herra á ó­upp­gert við Al­þingi, eru enn hita­mál. En á­hrif ríkis­fjár­mála­stefnunnar á verð­bólgu og vaxta­hækkanir, sem eru miklu skarpari hér en annars staðar, eru kannski þyngri og veiga­meiri.

Svo vill til að fjár­mál ríkisins eru á hendi sama flokks og fer með stjórn bæjanna fimm um­hverfis Reykja­vík.

Í tal­punktum fjár­mála­ráðu­neytisins á undan­förnum árum hefur mátt lesa stað­hæfingar um svo góða fjár­mála­stjórn að ekkert annað ríki standi betur að vígi til að mæta á­föllum en Ís­land.

Önnur saga

Ný­lega gaf fjár­mála­ráð út það álit að frá því fyrir Co­vid hafi verið við­varandi halli á venju­bundnum rekstri ríkis­sjóðs. Til við­bótar komi skulda­söfnun vegna far­aldursins. Og að öllu ó­breyttu muni kerfis­lægur halli aukast og skuldirnar vaxa en ekki minnka á þessu kjör­tíma­bili.

Fjár­mála­ráð notar ekki stór­yrði um þessa al­var­legu stað­reynd. En þetta er á­stæðan fyrir því að við­skipta­lífið segir að ríkis­sjóður kyndi nú undir verð­bólgu og ætli næstu ríkis­stjórn að leysa skulda­vandann.

Kjarni málsins er að álit fjár­mála­ráðs segir allt aðra sögu en tal­punktar fjár­mála­ráðu­neytisins.

Að réttu lagi ætti ríkis­stjórnin að bregðast við. Fyrir fólk og fyrir­tæki væri betra að hún mótaði á­byrga efna­hags­stefnu fremur en að taka sér til fyrir­myndar hlé­drægni leið­toga stærsta minni­hluta­flokksins í Reykja­vík.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 12. maí 2022