24 maí Næsta ríkisstjórn
Ríkisstjórnir eru oft gagnrýndar fyrir kosningafjárlög. Þá eru útgjöld aukin til vinsælla verkefna skömmu fyrir kosningar. Klapp á bakið og allir glaðir. En hin hliðin á dæminu, sem er ekki jafn vinsæl, er að afla tekna eða hagræða á móti. Sú hlið er skilin eftir fyrir næstu ríkisstjórn. Og fyrir komandi kynslóðir til að borga.
Gagnrýni af þessu tagi er ekki bundin við Ísland. Hún er þekkt í flestum lýðræðisríkjum.
Ég man hins vegar ekki eftir því fyrr en nú, að ríkisstjórn hafi beinlínis gefið út stefnuyfirlýsingu í byrjun kjörtímabils um að hún ætli að halda áfram að safna skuldum og skilja allan vandann eftir í fangi næstu ríkisstjórnar.
Það er erfitt að finna hliðstæðu af þessu tagi í öðrum vestrænum löndum. Finnist hún er það samanburður sem enginn ætti að stæra sig af.
Þetta segir bara eina sögu – það er alvarleg pólitísk kreppa í landinu.
Endurtekin gagnrýni atvinnulífsins
Fjármálareglur voru tímabundið felldar úr gildi vegna faraldursins. Ný fjármálaáætlun fram til ársins 2027 ber með sér að ríkisstjórnin ætlar ekki að innleiða þær á ný meðan hún situr.
Um þetta segja Samtök atvinnulífsins í nýrri umsögn: „Er næstu ríkisstjórn þannig eftirlátið að takast á við þann vanda, sem hefur skapast í opinberum fjármálum.“
Það sem meira er; þessi höfuðsamtök atvinnulífsins eru að endurtaka þessa gagnrýni. Hún kom strax fram fyrir hálfu ári þegar ríkisstjórnin kynnti fyrstu fjármálaáætlun þessa kjörtímabils. Og nú er hún ítrekuð.
Þessa gagnrýni er ekki hægt að afgreiða sem eitthvert gjamm og gagg óvinveittra andstæðinga á Alþingi. Samt leggur fjármálaráðherra ekki við hlustir og gefur atvinnulífinu bara langt nef.
Hljóð og mynd fara ekki saman
Samtök atvinnulífsins benda enn fremur á, að í fjármálaáætluninni heldur fjármálaráðherra því fram að opinber fjármál sporni gegn verðbólgu og dragi úr spennu í hagkerfinu. Þau segja hins vegar að fyrir þessu séu ekki færð sannfærandi rök.
Þetta er þungur áfellisdómur frá samtökum, sem vörðu miklum fjármunum í síðustu kosningum til að tryggja framhaldslíf ríkisstjórnarinnar.
Bandalag háskólamanna nálgast fjármálaáætlunina eðlilega frá öðru sjónarhorni en atvinnulífið og tekur ekki jafn sterkt til orða. En kjarninn í gagnrýni þess er sá sami.
Þannig segja háskólamenn að ríkisstjórnin þurfi að gera grein fyrir langtímasjónarmiðum sínum um þróun samfélagsins og hvernig áætlanir hennar um útgjöld og tekjur ríma við þá framtíðarsýn. Þó að orðalagið sé hógvært felst í því sama gagnrýni og hjá atvinnulífinu. Hljóð og mynd fara ekki saman.
Í umsögn BHM er bent á að hallinn vegna heimsfaraldursins sé 500 milljarðar króna, en ríkisstjórnin ætli að tvöfalda þann halla fram til 2027. Bandalagið bendir á að engin stefna hefur verið mótuð um það hver eigi að bera þær byrðar.
Nýjar ófjármagnaðar aðgerðir
Fyrir skömmu ákvað ríkisstjórnin að hækka sumar bótagreiðslur til þess að vega upp á móti kjararýrnun verðbólgunnar. Það var fullkomlega eðlilegt. En fjármálaráðherra ákvað að með öllu væri ástræðulaust að afla tekna fyrir þeim útgjöldum.
Næsta ríkisstjórn á að leysa þann vanda.
Danska krataríkisstjórnin kynnti svipuð áform á dögunum. Einn af stuðningsflokkum hennar setti henni aftur á móti stólinn fyrir dyrnar og sagði réttilega að ófjármögnuð útgjöld kæmu niður á launafólki með vaxandi verðbólgu.
Enginn þingmaður Sjálfstæðisflokksins hreyfði sjónarmiðum af þessu tagi. Ekki einn einasti. Bandalag háskólamanna gerir það hins vegar í umsögn sinni um fjármálaáætlunina. Sú staða hefur ekki komið upp áður í umræðum um ríkisfjármál.
Samhljómur í gagnrýni
Þessi dæmi sýna að kröfur um ábyrga ríkisfjármálastefnu koma jöfnum höndum frá launafólki og atvinnufyrirtækjum.
Bandalag háskólamanna vill standa vörð um velferðarkerfið en Samtök atvinnulífsins vilja sjá meira svigrúm fyrir fyrirtækin.
En hvor tveggja þessi samtök vita að það mun koma illa við fólk og fyrirtæki að bíða út kjörtímabilið með ábyrga fjármálastjórn.
Þess vegna er ákveðinn samhljómur í gagnrýni þeirra.
Fjármálaráðherra treystir næstu stjórn betur
Fjármálaráðherra treystir greinilega næstu ríkisstjórn betur en þeirri sem nú situr til þess að leysa vandann. Það er virðingarvert sjónarmið og raunsætt. En pólitíska kreppan felst í því að fólkið í landinu og fyrirtækin geta ekki beðið í þrjú ár.
Það er ekki ágreiningur milli ríkisstjórnarflokkanna. Þeir virðast bara ekki ræða hvort möguleikar eru á samkomulagi þeirra á milli um ábyrga fjármálastjórn. Snerta ekki á málinu.
Þegar svo er komið eiga þeir að viðurkenna úrræðaleysið fyrir þjóðinni og fela henni að stokka spilin upp á nýtt og leyfa trausti fjármálaráðherra á næstu ríkisstjórn að blómstra án frekari tafa.
Stöðugleiki við ríkisstjórnarborðið þjónar litlum tilgangi ef hann dugar ekki til að stuðla að stöðugleika í þjóðarbúskapnum.
Umsagnirnar um fjármálaáætlunina sýna að við erum þar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. maí 2022