26 maí Það þarf bara vilja og þor
Nú hafa bæði Svíar og Finnar sótt formlega um aðild að NATO. Ástæðan er augljós en staðan í heimsmálunum hefur leitt til þess að hagsmunamat þessara ríkja breyttist. Það má segja að þau hafi verið með nokkurs konar aukaaðild að bandalaginu líkt og Ísland og Noregur hafa haft að Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn. Svíar og Finnar hafa tekið þátt í æfingum NATO en hvorki komið að ákvarðanatöku né notið að fullu þess öryggis sem aðildin veitir. Nú þegar á reynir liggur fyrir að þessi ríki velja að taka skrefið til fulls og tryggja sér sæti við borðið. Svíar og Finnar vilja vera fullgildir þátttakendur, leggja sitt til málanna og njóta kosta aðildar til fulls. Það má læra af því.
Evrópusambandið er ekki hernaðarbandalag, en samstarf Evrópusambandsríkja á sviði öryggis- og varnarmála hefur orðið meira og nánara á undanförnum árum. Evrópusambandið hefur þannig lagt áherslu á samvinnu aðildarríkjanna vegna áhættuþátta eins og farsótta, náttúruhamfara og annarrar umhverfisógnar, skipulagðrar glæpastarfsemi, hryðjuverkaógnar, netöryggis og orkuöryggis.
Evrópusambandið býður ekki upp á sams konar vörn gegn hernaðarógnum eins og kveðið er á um í varnarsamningi okkar við Bandaríkin eða í 5. grein NATO-samningsins þar sem segir efnislega að árás á eitt bandalagsríki jafngildi árás á þau öll. Í samþykkt ráðherraráðs Evrópusambandsins frá árinu 2004 er þó kveðið á um sameiginlegar varnir og samstöðu í varnarmálum. Samkvæmt henni – og ákvæði Lissabon-sáttmálans frá árinu 2007 – er aðildarríkjunum skylt að koma til aðstoðar með öllum ráðum ef náttúruhamfarir eða áföll af mannavöldum eiga sér stað í öðru aðildarríki eða ef það verður fyrir hryðjuverkaárás. Komi til vopnaðra átaka á yfirráðasvæði aðildarríkis er öðrum aðildarríkjum skylt að bjóða fram hjálp og aðstoð eins og þau frekast geta.
Sameiginleg viðbrögð Evrópusambandsbandsríkja á sviði öryggis- og varnarmála taka þannig til samfélagsöryggis í heild sinni. Það er ekki síst á því sviði sem hlutverk Evrópusambandsins verður enn veigameira í þeirri breyttu heimsmynd sem við búum nú við. EES-samningurinn veitir Íslandi hins vegar ekki beina aðild að öryggis- og varnarsamstarfi Evrópusambandsins. Það liggur því í augum uppi að hagsmunir Íslands kalla á að við tökum utanríkisstefnu og þjóðaröryggi okkar til endurskoðunar með það fyrir augum að sækjast eftir aðildarviðræðum við Evrópusambandið.
Ákvörðun Finna og Svía um aðildarumsókn að NATO er tekin eftir nokkurra vikna umræður en byggir engu að síður á víðtæku samráði. Það er nefnilega hægt að bregðast hratt við þegar aðstæður krefjast án þess að nauðsynleg og gagnrýnin pólitísk umræða sé undanskilin. Það þarf bara vilja og þor.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. maí 2022