Við völd í hálfa öld

Það er til umhugsunar fyrir kjósendur í Garðabæ að núverandi meirihluti Sjálfstæðismanna hefur stjórnað Garðabæ í tæp fimmtíu ár. Er það hollt fyrir bæinn okkar að einn og sami flokkurinn með sömu stefnu og áherslur sé við völd í tæpa hálfa öld?

Reynslan hefur sýnt að valdaseta í langan tíma leiðir oftar en ekki til valdþreytu, jafnvel valdhroka hvort sem það er við stjórn sveitarfélaga, landa eða samtaka. Fulltrúar minnihlutans í Garðabæ hafa ítrekað fengið að kynnast þessari hvoru tveggja á síðasta kjörtímabili og m.a.s. fengið á sig ákúrur um lygar þegar þeir hafa stungið á viðkvæm kýli meirihlutans. Fulltrúarnir minnihlutans hafa á tímabilinu oftsinnis ekki fengið gögn á umbeðnum tíma, upplýsingum hefur verið haldið frá þeim, tillögur þeirra hafa ekki náð í gegn og aðvaranir þeirra verið hunsaðar af hálfu meirihlutans þegar augljóslega hefur stefnt í óefni. Eins og saga kjörtímabilsins segir okkur.

Valdþreytan hefur einnig komið í ljós við skipulagningu og framkvæmdir í nýjasta hverfi bæjarins, Urriðaholti. Þar bókstaflega gleymdist að gera ráð fyrir þörf fyrir leikskóla. Fulltrúar meirihlutans virðast hafa gert ráð fyrir að þar væru byggð munka- og nunnuklaustur þar sem engin börn verða til.

Innkaupamál bæjarins hafa verið í ólestri og valdhrokinn hefur ítrekað komið fram. Bæjarfulltrúar minnihlutans eru ekki þeir einu sem hafa mætt valdhrokanum heldur hafa bæjarbúar marigir hverjir sjálfir upplifað hann á eigin skinni, sér til undrunar. Innkaupareglur og lög um opinber innkaup hafa verið sniðgengin sem nemur milljörðum króna á kjörtímabilinu á kostnað grandlausra bæjarbúa. Og svo er talað um traustan og ábyrgan rekstur.

Forðumst áframhaldandi valdþreytu og gefum D listanum frí frá meirihluta á næsta kjörtímabili.

Er þetta ekki bara orðið gott hjá þeim?

Greinin birtist fyrst á Vísi 13. maí 2022