04 jún Best í breyttum heimi?
Ég átti orðastað við Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur utanríkisráðherra í vikunni, þar sem ég spurði m.a. hvort í gangi væri vinna með endurskoðað hagsmunamat í öryggismálum Íslands, miðað við breytta stöðu í Evrópu. Við erum ósammála um mikilvægi Evrópusambandsins í þessu sambandi en samtalið er nauðsynlegt. Í máli ráðherra kom fram að umræðan um Evrópusambandið væri að nokkru leyti að breytast í Evrópu. Það er auðvitað hárrétt. Nærtækast fyrir okkur er að líta til þess að yfirgnæfandi meirihluti dönsku þjóðarinnar kaus í vikunni með því að falla frá fyrirvörum og hefja þátttöku í varnarsamstarfi Evrópusambandsins. Danir eru þannig ekki í neinum vafa um kosti aðildar að Evrópusambandinu fyrir öryggi sitt og fullveldi. Í Noregi er vaxandi þungi í umræðum um að það sé tímabært að skoða Evrópusambandsaðild að nýju.
Eins mikilvægt og Evrópusambandið óneitanlega er fyrir frjáls viðskipti á milli landa, þá snýst samstarfið í heild sinni um annað og meira. Síðari heimsstyrjöldin tætti álfuna okkar nánast í sundur. Á síðustu áratugum hafa þjóðir Evrópu færst nær hver annarri og tilvist Evrópusambandsins var staðfesting á því markmiði að aldrei aftur færu Evrópuríki í stríð hvert við annað. Þar vinna þjóðir Evrópu saman, ekki bara varðandi frjáls viðskipti heldur líka lýðræði, mannréttindi, þróunarstarf, umhverfismál og vörn gegn utanaðkomandi ógnum, svo það helsta sé nefnt.
Ísland er stofnaðili að Atlantshafsbandalaginu, öflugasta öryggis- og varnarsamstarfi í heimi. Sem betur fer. Það eru Danir líka. Í ljósi breyttrar stöðu í heimsmálunum hafa þau nú tekið einarða afstöðu með því að taka fullan þátt í varnarsamstarfi Evrópusambandsins en Danir hafa til þessa verið eina aðildarríkið sem ekki tekur þátt í því samstarfi. Eftir að danska þjóðin hafði sagt sitt í þessu máli, sagði Mette Frederiksen, forsætisráðherra Dana, að það væri mikilvægt að senda þau skilaboð til manna eins og Pútíns Rússlandsforseta að þjóðir Evrópu stæðu saman gegn þeirri ógn sem skapaðist, þegar ráðist væri á eina þeirra. Atlantshafsbandalagið yrði áfram mikilvægasta stoðin í varnar- og öryggismálum Dana en varnarsamstarf ESB styrkti varnirnar til austurs.
Er ekki rétt að viðurkenna þörfina á því að við endurskoðum hagsmunamatið í öryggismálum Íslands miðað við breytta stöðu í Evrópu? Eitt af því sem Danir munu til dæmis styrkja til muna, með því að taka þátt í varnarsamstarfi Evrópusambandsins, er netöryggi. Við vitum að stríð framtíðarinnar verða háð með öðrum hætti en við höfum þekkt til þessa, til dæmis með auknum netárásum. Hvar stöndum við í þessum málum? Hvar er best fyrir okkur að standa?
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. júní 2022