23 jún Frelsi til að kveðja ofbeldið
Hvernig stendur á því að okkur hefur þótt í lagi svo árum og áratugum skiptir að kerfið vinni gegn fólki sem vill losna úr ofbeldissamböndum? Að einstaklingur sem þarf að losna úr hjónabandi þar sem hann hefur verið beittur ofbeldi af maka sé háður því að makinn samþykki skilnaðinn á grundvelli ofbeldisins? Jafnvel þótt hann hafi hlotið dóm fyrir. Að ferlið taki óratíma fyrir dómstólum með tilheyrandi kostnaði. Að tíminn og kostnaðurinn þýði jafnvel að fólk gefist upp og endi aftur í ofbeldissambandinu. Að það væri í öllum tilfellum best að hafa það einfalt að giftast en erfitt að skilja?
Sem betur fer hafa nú orðið kaflaskil í þessum málum eftir að Alþingi samþykkti frumvarp Viðreisnar um breytingar á hjúskaparlögum sem auðveldar skilnaðarferlið fyrir fólk sem hefur orðið fyrir ofbeldi af hálfu maka síns eða býr á heimili þar sem barn hefur verið beitt ofbeldi. Með gildistöku laganna 1. júlí 2023 mun nægja að fyrir liggi upplýsingar frá lögreglu um útkall vegna heimilisofbeldis eða önnur gögn á borð við áverkavottorð eða mat sálfræðings eða þá að heildarmat á aðstæðum og upplýsingum gefi að öðru leyti tilefni til að ætla að það hjóna sem krefst skilnaðar, eða barn sem býr hjá hjónunum, hafi mátt þola líkamlegt eða andlegt ofbeldi af hálfu maka. Þegar skilnaðar er krafist á þessum grundvelli fyrir dómi eiga þolendur jafnframt rétt á sérstakri flýtimeðferð.
Samþykkt þessa máls er skref í átt að auknu réttlæti fyrir þolendur heimilisofbeldis, en það er enn mikið verk fyrir höndum. Það er því ánægjulegt að við afgreiðslu frumvarpsins samþykkti Alþingi að beina því til ráðherra málaflokksins að endurskoða ákvæði hjúskaparlaga og framkvæmd þeirra innan tveggja ára. Þá var sérstaklega tekið undir mikilvægi þess að breyta gjafsóknarreglum hið allra fyrsta á þann veg að þær taki í öllum tilvikum til fólks sem krefst skilnaðar á grunni heimilisofbeldis.
Hjónabandið hefur verið mikilvæg grunneining í samfélagi okkar og því nauðsynlegt að um það gildi skýr lög og reglur. Það er hins vegar sjálfsögð og afdráttarlaus krafa að þau lög og þær reglur hefti ekki frelsi fólks sem vill losna úr ofbeldissambandi. Að kerfið vinni ekki gegn fólki heldur með því. Öðruvísi er ekki hægt að tala um hjónabandið sem jákvæða grunneiningu í samfélaginu. Það hljótum við öll að geta verið sammála um. Það eru líka einróma skilaboð Alþingis. Loksins.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. júní 2022