08 jún Leiðréttum launaskekkjuna
Það eru ríflega fimm ár síðan stjórnarflokkarnir tóku við völdum. Á hálfum áratug hefur stjórninni því gefist nægur tími til verka. Staðan á vinnumarkaði sýnir þó að enn er langt í land í jafnréttismálum.
Kerfisbundna óréttlætið
Að undanförnu hefur Bandalag háskólamanna beint spjótum að þessum vanda. Í gagnrýni þeirra segir að enn sé ójafnt gefið í íslensku samfélagi og að þar halli verulega á konur. Á næstu árum þurfi atvinnulíf og heildarsamtök því að vinna saman að samfélagssátt og leiðrétta skakkt verðmætamat „kvennastarfa“ á opinberum markaði. Samhliða því þyrfti í sameiningu að hemja mögulegt höfrungahlaup sem af slíkri leiðréttingu gæti hlotist. Til þess þurfi skilning meðal almennings og atvinnulífs á því kerfisbundna óréttlæti sem tíðkast í virðismati „kvennastarfa“ á opinbera markaðnum.
Hér er ég sammála BHM enda eru þessi orð í fullu samræmi við þingsályktunartillögu okkar í Viðreisn frá 2017 sem fjallaði um þjóðarsátt um bætt launakjör kvennastétta. Tillagan var samþykkt ári síðar og var fjármála- og efnahagsráðherra falið þetta hlutverk og fá aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélög til að tryggja jafnræði við launasetningu ólíkra starfsstétta. Síðan hefur lítið til þessarar tillögu spurst enda málið komið til ríkisstjórnarinnar, sem enn og aftur finnst skipta máli hvaðan tillögur koma í stað þess að taka á vandamálinu og fara af krafti í þetta brýna viðfangsefni.
Samt blasir við ófremdarástand í heilbrigðiskerfinu þar sem álag er gríðarlegt og hjúkrunarfræðingar leita í önnur störf, hætta eða enda í örorku. Þessi snjóboltaáhrif leiða síðan til þess að mikil þekking og reynsla hverfur út úr heilbrigðiskerfinu. Staðan á Landspítalanum og í opinbera geiranum er bein afleiðing þess að ekki hefur tekist að bæta kjör kvennastétta. Sú misskipting er eitt stærsta vandamál heilbrigðiskerfisins. Fólk veigrar sér við að leita til spítalans eða á heilsugæslu vegna álagsins. Á meðan laun hjúkrunarfræðinga og annarra kvennastétta eru ekki samkeppnishæf verður staðan áfram þessi. Það er pólitísk ákvörðun.
Pólitíska forystu vantar
Þegar álagið er ómennskt og hjúkrunarfræðingar neyddir til að segja upp vegna bugunar felur ríkisstjórnin nefnd að skoða málið. Það kann hún. En staðreyndirnar tala sínu máli og ástandið í heilbrigðiskerfinu þar með.
Við erum vissulega í fyrsta sæti þegar kemur að jafnréttismálum. Forsætisráðherra bendir réttilega á að jafnlaunvottun hafi skipt miklu máli, þótt eitt fyrsta verk ríkisstjórnarinnar hafi verið að fresta gildistöku hennar um eitt ár. Margt hefur áunnist. En þetta þýðir líka að við þurfum að vera í forystu til að laga það ójafnrétti sem til staðar er. Þetta jafnréttismál, að leiðrétta kjör kvennastétta innan opinbera geirans, er mikilvægt velferðarmál og eitt það brýnasta sem þarf að taka föstum tökum nú í aðdraganda kjarasamninga.
Við erum lítið samfélag. Allt of lítið til að fjölmennar kvennastéttir séu látnar bera uppi velferðarkerfi á launum sem byggja á skökku gildismati. Þessu er hægt að breyta. Hæg eru heimatökin ef pólitísk forysta er til staðar.
Fyrir síðustu kjarasamninga missti ríkisstjórnin þennan bolta. Nú er aftur tækifæri til að grípa boltann og beita sér raunverulega í þágu þess að bæta launakjör kvennastétta. Skapa þjóðarsátt um þá leið. Eða eins og BHM orðaði það: „Ójöfn launasetning, þar sem hallar á konur á opinberum markaði, er einfaldlega ekki verjandi fyrir íslenskt samfélag lengur – og hefur reyndar aldrei verið það.“