Orku­skiptin fara í bið­flokk

Þorsteinn Pálsson

Með afgreiðslu rammaáætlunar ákvað ríkisstjórnin að setja metnaðarríkt markmið um algjör orkuskipti fyrir 2040 í fleytifullan biðflokk pólitískra ákvarðana.

Ofsagt væri að markmiðinu hafi beinlínis verið stútað. En líkurnar á að það náist eru hverfandi.

Umhverfisráðherra sagði sjálfur á dögunum að Ísland hefði dregist aftur úr öðrum þjóðum í loftslagsmálum. Afgreiðsla rammaáætlunar breytir í engu þeirri stöðu.

Firra

Sú gagnrýni er réttmæt að verkefni voru færð bæði úr nýtingarflokki og verndarflokki í biðflokk án ríkra faglegra raka. Hitt er firra að afgreiðsla rammaáætlunar í heild hafi verið óskaplegur náttúruverndarósigur VG.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, vinnumarkaðs- og félagsmálaráðherra, var nær veruleikanum þegar hann sagði: „Þetta er biðleikur í náttúruvernd.“ Afgreiðsla rammaáætlunar staðfesti einfaldlega að VG er meiri náttúruverndarflokkur en loftslagsverndarflokkur. Þess vegna er markmiðið um orkuskipti í uppnámi.

Guðlaugur Þór Þórðarson fór vel af stað í nýju ráðuneyti. En hann hefur ekki haft stuðning í eigin þingflokki til að knýja VG til ákvarðana um tengingu milli orkuöflunar og markmiða stjórnarsáttmálans um orkuskipti og hagvöxt. Það hefði raskað stöðugleika samstarfsins.

Einsdæmi

Hér þarf líka að hafa í huga að í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um að umhverfisráðherra þurfi að hafa samvinnu við forsætisráðherra um mál, sem undir hann heyra.

Samvinna ráðherra hefur alltaf þótt svo sjálfsögð að aldrei fyrr hefur verið samið um hana sérstaklega.

Þetta einstæða ákvæði bendir til þess að pólitískt fari VG og Sjálfstæðisflokkur saman með málefni þessa ráðuneytis, þó að stjórnskipuleg ábyrgð umhverfisráðherra sé ljós.

Framsókn

Framsókn er sá stjórnarflokkanna, sem ákafast hefur talað fyrir virkjunum til að tryggja orkuskipti og hagvöxt.

Þessi sjónarmið urðu undir. Hafi einhver stjórnarflokkanna tapað málefnalega er það Framsókn.

En svo er hitt að hún hefur stóraukið fylgi sitt með því að lýsa sérstöðu í heitum málum en samþykkja eigi að síður niðurstöðu jaðarflokkanna.

Græna skýrslan

Kjarni málsins er sá að ný rammaáætlun svarar í engu þeim skýru spurningum, sem beint er til ríkisstjórnarinnar í grænu skýrslunni frá því í mars um „stöðu og áskoranir í orkumálum með vísan til markmiða og áherslna stjórnvalda í loftslagsmálum.“

Einn þyngsti áfellisdómur skýrslunnar yfir ríkisstjórn, sem setið hefur í fimm ár, er þessi: „Fjárfestingar í orkuframkvæmdum hafa hingað til ekki fylgt eftir markmiðum í loftslagsmálum.“

Samkvæmt eldri heimildum fer Hvammsvirkjun væntanlega af stað í haust. En stóra myndin er sú að ríkisstjórnin flytur verkefni úr nýtingarflokki í biðflokk þegar aðeins 17 ár eru til loka orkuskipta.

Þar af leiðandi getur hún ekki sýnt fram á klár áform um nægjanlega orkuöflun til að útrýma jarðefnaeldsneyti á Íslandi fyrir 2040 og standa um leið við yfirskrift stjórnarsáttmálans um „vöxt til velferðar“ með nýsköpun í líftækni, orkufrekri matvælaframleiðslu, landeldi á fiski og framleiðslu rafeldsneytis.

Leiðir

Í grænu skýrslunni kemur fram að til þess að ná þessum markmiðum stjórnarsáttmálans um græna iðnbyltingu og orkuskipti þarf að auka rafafl sem nemur 100 MW á hverju einasta ári næstu tvo áratugi.

Þetta er stór tala en ekki heilög. Það er hægt að nálgast loftslagsmarkmiðin eftir annarri leið.

Þá þarf að draga úr flugsamgöngum og minnka ferðaþjónustu eða loka álverum, kaupa rafeldsneyti erlendis í stað þess að framleiða það hér heima og rifa verulega seglin í nýsköpunaráformum. Jafnframt yrði að semja við launafólk um að miða launakröfur við minni hagvöxt eða jafnvel alls engan og gleyma neikvæðum áhrifum skulda ríkissjóðs á velferðarkerfið.

Græna skýrslan segir að ríkisstjórnin þurfi að velja leið. En það bara gerir hún ekki þrátt fyrir „vandaða“ umhugsun í fimm ár.

Pólitík

Í dag erum við nær samdráttarleiðinni en „vexti til velferðar,“ ef halda á fast í loftslagsmarkmiðin. Hitt er þó líklegra að þeim verði fórnað.

Þetta er afleiðing af því eðli samstarfs jaðarflokkanna að setja stórar ákvarðanir í biðflokk.

Pólitík er hins vegar að gera upp á milli markmiða þegar þau stangast á.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 23. júní 2022