08 jún Pólitískur ómöguleiki stjórnvalda
Stjórnmálin eru gerbreytt eftir innrásina í Úkraínu. Í Noregi hefur umræðan um aðild landsins að ESB orðið háværari, Svíþjóð og Finnland hafa sótt um aðild að NATO og Danir hafa kosið að hefja þátttöku í varnarsamstarfi ESB. Í nágrannaríkjunum er samstaða um þörfina fyrir endurmat og umræðu.
Öðru máli gegnir um viðbrögð stjórnvalda hér heima. Enginn áhugi á að endurmeta stöðu okkar. Allir valkostir slegnir af borðinu og engar tillögur settar fram. Og auðvitað má alls ekki spyrja þjóðina.
Umræðan um varnarmál eykur vanlíðan VG við ríkisstjórnarborðið og hinir stjórnarflokkarnir eru meðvirkir. Þess vegna verður ekkert gert. Sennilega er stefnuleysi við stýri þjóðarskútunnar hinn sanni pólitíski ómöguleiki í íslenskum stjórnmálum.
Nú eru breyttir tímar og kostir ESB-aðildar blasa skýrt við. Ekki síst hvað öryggishagsmuni varðar. Rifjum upp þverfaglegu áhættumatsskýrsluna sem stjórnvöld létu gera eftir brotthvarf varnarliðsins. Mælt var með sterkara samstarfi Íslands við ESB þar sem landið stæði frammi fyrir áhættuþáttum ekki ósvipuðum þeim í öryggisstefnu ESB.
Meðmælin eiga líka við í dag. Eins og hin Norðurlöndin og evrópsk nágrannaríki Rússlands gera sér grein fyrir. Þau eru í engum vafa um mikilvægi sambandsins fyrir lýðræði og mannréttindi, enda stofnað til að viðhalda friði. Það hefur mikla þýðingu í heimsálfu sem þekkir hörmulegar afleiðingar stríðs.
Öryggi okkar nyti góðs af virkari þátttöku innan ESB og varnarsamstarfsins. Mikilvæg viðbót við aðildina að NATO sem ein og sér dugar ekki herlausri smáþjóð. Því í dag snýst öryggið ekki bara um innrásir og hefðbundinn hernað. Einnig um samfélagsöryggi og innviði þjóða, efnahag og almannavarnir, umhverfi og auðlindir, og svo margt fleira. Svo frelsi og lýðræði verði tryggt.
Við þurfum að styrkja varnir okkar á öllum sviðum og tryggja hagsmuni okkar í víðum skilningi. Þar er aðild að Evrópusambandinu augljós kostur.