09 jún Tvær heitar kartöflur
Þjóðin hefur um árabil staðið andspænis tveimur stórum verkefnum í auðlindamálum.
Annað þeirra snýst um gjaldtöku fyrir einkarétt til veiða í sameiginlegri auðlind. Hitt lýtur að orkuöflun til þess að ná markmiðum um orkuskipti og hagvöxt.
Klemman er sú sama í báðum tilvikum:
Jaðrarnir í pólitíkinni, lengst til hægri og lengst til vinstri, byggja samstarfið við ríkisstjórnarborðið á gagnkvæmu neitunarvaldi. Flokkarnir næst miðjunni eru sundraðir meðal annars vegna þess að sá stærsti þeirra er bundinn í ríkisstjórn af neitunarvaldi tveggja jaðarflokka.
Nefnd og nefndakerfi
Bæði málin eru heitar kartöflur í pólitískum skilningi. Í full fjögur ár gætti ríkisstjórnin þess að snerta hvoruga þeirra.
Á þessu ári hafa tveir ráðherrar árætt að nálgast kartöflurnar, án þess þó að snerta þær. Nálgunin felst í skipun nefnda. En nefndaskipanir geta verið ólíkrar náttúru.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra skipaði í byrjun árs þriggja manna nefnd. Eftir tvo mánuði skilaði hún grænni skýrslu með skýrum kostum.
Matvælaráðherra stofnaði svo á dögunum heilt nefndakerfi. Það er með fjóra starfshópa, eina samhæfingarnefnd, eitt yfirráð og alls fjörutíu og sex stjórnmálamenn, embættismenn, sérfræðinga og hagsmunagæslufulltrúa.
Góður grunnur til ákvarðana
Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með orkumálin í bráðum áratug. En þingmenn hans hafa til þessa kosið að aðhafast ekkert.
Framsókn og Viðreisn, innan og utan ríkisstjórnar, hafa aftur á móti talað tæpitungulaust fyrir því að afla orku til að tryggja orkuskipti í tíma.
Snaggaralegt verklag Guðlaugs Þórs Þórðarsonar benti til að hann hefði í hyggju að bæta stöðu Sjálfstæðisflokksins á þessu sviði. Græna skýrslan er engin útideyfa. Hún stillir upp skýrum pólitískum spurningum til ákvörðunar.
Undirbúningstími virkjana er langur meðal annars vegna mikilvægra umhverfissjónarmiða. Ljóst er því að ekki má draga deginum lengur að setja fram tímasetta tuttugu ára orkuöflunaráætlun byggða á grænu skýrslunni. Það hefði reyndar átt að gerast í byrjun síðasta kjörtímabils.
Brennandi áhugi á réttlæti
Daginn sem Svandís Svavarsdóttir kynnti risastóra nefndakerfið sagði hún í viðtali við RÚV að markmiðið væri tvenns konar: Annars vegar að leysa óánægju vegna samþjöppunar veiðiheimilda og hins vegar óréttlátrar skiptingar á ágóðanum af sameiginlegri auðlind.
Í viðtali á Hringbraut sagðist ráðherrann brenna fyrir auknu réttlæti í sjávarútvegi.
Forstjóri Samherja sagði svo í viðtali við Fréttablaðið daginn eftir að hann fagnaði nefndunum.
Sá fögnuður gæti stafað af því að hann deili með ráðherranum brennandi áhuga á meira réttlæti.
En fögnuðurinn gæti líka stafað af hinu að hann deili með mörgum öðrum þeirri hugsun að svo þvælið nefndakerfi sé líklegra til að flækja en leysa ágreininginn.
Verkefni fyrir ríkisstjórn
Ágreiningurinn er hugmyndafræðilegur. Hvorugt verkefnið leysist því í nefnd. Það þarf að höggva á hnútana við ríkisstjórnarborðið.
Matvælaráðherra reynir að seinka för síns máls upp á borð ríkisstjórnar til að skapa ekki þrýsting á Sjálfstæðisflokkinn. Með því varðveitir hún pólitískan stöðugleika en hættir á að brennandi áhugi hennar og þjóðarinnar á auknu réttlæti lendi í útideyfu eitt kjörtímabil í viðbót.
Orkuráðherra reynir hins vegar að flýta för síns máls til ákvarðana við ríkisstjórnarborðið til þess að þrýsta á VG. Hann virðist hafa metnað til að ná raunverulegum árangri, en er að falla á tíma. Þó að græna skýrslan hafi verið tilbúin í mars bólar samt ekkert á ákvörðunum.
Best fyrir þjóðina
Áframhaldandi stöðugleiki í aðgerðaleysi á þessum tveimur sviðum auðlindamála þýðir meira óréttlæti og meiri óvissu í loftslagsmálum og í þjóðarbúskapnum.
Hefðbundin málamiðlun milli jaðarflokkanna myndi þýða hálft réttlæti í sjávarútvegi og hálfan árangur í orkuöflun.
Formaður Viðreisnar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, stakk hins vegar upp á þeirri málamiðlun í áramótagrein í Morgunblaðinu að jaðarflokkarnir féllu frá neitunarvaldi sínu á báðum þessum sviðum.
Þá hefði matvælaráðherra öruggan meirihluta fyrir réttlæti í sjávarútvegi með eðlilegu gjaldi fyrir tímabundinn nýtingarrétt. Og orkuráðherra hefði góðan meirihluta fyrir tímasettri áætlun um orkuöflun til orkuskipta og hagvaxtar.
Er þetta ekki bara best fyrir þjóðina?