02 júl 400 milljónir eitthvert og af því bara
Á hverju ári fer fjöldi Íslendinga í aðgerðir erlendis eftir óviðunandi bið á heilbrigðisstofnunum hér heima. Þetta er fáránlegur veruleiki en nú er að koma í ljós hvað hann kostar okkur. Í fyrradag fékk ég loks svar frá heilbrigðisráðherra við fyrirspurn sem ég lagði fram í lok apríl. Þar kemur fram að frá árinu 2017 hafa íslensk stjórnvöld greitt tæplega 400 milljónir króna fyrir þessar aðgerðir.
Það skiptir máli hvernig stjórnvöld ráðstafa peningunum okkar. Ekki síst í heilbrigðiskerfinu þar sem það er viðvarandi áskorun að eftirspurnin eftir þjónustu er alltaf meiri en hægt er að anna. En umræddar aðgerðir þarf einmitt ekki að framkvæma erlendis heldur eru allar aðstæður fyrir hendi hér á landi þó svo að heilbrigðisstofnanir ráði ekki við fjöldann. Það er heldur ekki þannig að þeir rúmlega 500 einstaklingar sem um ræðir hafi óskað eftir því að vera fluttir úr landi í erfiðar aðgerðir, aldeilis ekki. Þeir fá einfaldlega ekki að leita til sérfræðinga hér á landi nema borga allt úr eigin vasa.
Ég er svolítið upptekin af þessu með meðferð opinberra fjármuna, þið vitið peninga skattgreiðenda, og vildi því fá að vita hvernig þessar greiðslur Sjúkratrygginga Íslands samrýmdust verðskrá í landi viðkomandi þjónustuveitenda. Svar heilbrigðisráðherra var að Sjúkratryggingar Íslands hefðu ekki þær upplýsingar. Eftir stendur þá ósvarað hvernig verðið sem Sjúkratryggingar borga er ákveðið. Er útboð sem íslenskir sérfræðingar fá ekki að taka þátt í? Eða fá íslenskir sérfræðingar að taka þátt svo lengi sem aðgerðirnar eru ekki framkvæmdar hér á landi. Eða er einhver önnur leið farin? Um þetta þarf að ríkja fullkomið gagnsæi.
Það verður að segjast eins og er að þetta er ekki mjög skýrt. Og þá á ég eftir að nefna síðasta svarið sem er kafli út af fyrir sig. Það er ekki óalgengt að íslenskir læknar framkvæmi þessar aðgerðir erlendis, fylgi jafnvel sjúklingunum út. Í von um að fá betri mynd af þessu spurði ég hverjir hefðu veitt þessa þjónustu, greint eftir þjóðerni og vinnustöðum í einu landi eða fleirum, eftir atvikum. Svar ráðherra er svona: „Langflestar aðgerðir vegna biðtíma fara fram á Norðurlöndunum, mest í Svíþjóð. Ef Sjúkratryggingar Íslands eiga að taka saman sérstaklega upplýsingar um hvern og einn þjónustuveitenda þarfnast það lengri svarfrests.“
Tveir mánuði duga sem sagt ekki til að upplýsa hvert þessar 400 milljónir renna. Okkur kemur það sennilega ekkert við. Ekki frekar en svo margt annað sem tengist fjármálastjórnun þessarar útgjaldaglöðustu ríkisstjórnar Íslandssögunnar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. júlí 2022