07 júl Enginn vill í Evrópusambandið!!!
Það vill enginn fara í Evrópusambandið.“
Þessi tilvitnun er ekki í ræðu formanns Miðflokksins.
Kristján Kristjánsson stjórnandi Sprengisands lét þessi orð falla í þætti sínum 19. júní, daginn eftir að greint var frá því að í annað skiptið á þessu ári sýndi skoðanakönnun að miklu fleiri kjósendur styddu aðild að Evrópusambandinu en væru henni andvígir.
Pottlok
Hér á hlut að máli annar af tveimur allra bestu stjórnendum pólitískra umræðuþátta í landinu. Ummælin skrifast hugsanlega á fljótfærni og skipta litlu máli. Þau eru bara smátt dæmi um hversu þétt pottlok hefur verið sett á umræður um þetta mikilvæga álitaefni.
Það eru fyrst og fremst stjórnarflokkarnir þrír og Samtök atvinnulífsins, sem beitt hafa áhrifavaldi sínu á síðustu árum til þess að kæfa umræðu um að Ísland stígi lokaskrefið frá aðild að innri markaði Evrópusambandsins til fullrar aðildar.
Frá fólkinu
Þessi markvissa þöggunarstefna hefur haft áhrif á vettvangi stjórnmála, í atvinnulífinu, fjölmiðlum og jafnvel innan samtaka launþega. En órökstuddar alhæfingar duga ekki endalaust til að bæla niður umræður af þessu tagi.
Það áhugaverðasta við þessar tvær skoðanakannanir er að viðhorfsbreytingin, sem þær sýna, er sjálfsprottin. Hún kemur ekki í kjölfar umræðuþrýstings eða áróðursherferðar.
Fólkið finnur einfaldlega sjálft að sviptingar í alþjóðamálum kalla á endurmat á íslenskri hagsmunagæslu meðan leiðtogar atvinnulífsins og stjórnarflokkanna leggja kollhúfur.
Aðildarumsókn Finna og Svía að NATO spratt upp úr svipuðum breytingum í skoðanakönnunum. Þar tók pólitíkin forystu í umræðunni en reyndi ekki að setja pottlok á hana.
Umskipti
Þó að aðildarspurningin hafi ekki verið á dagskrá í áratug sýndu kannanir að allt að þriðjungur þjóðarinnar var henni að jafnaði fylgjandi. Nú er það tæpur helmingur, rúmur þriðjungur andvígur og aðrir óákveðnir. Þetta eru mikil umskipti.
Allir flokkar, nema Miðflokkurinn, fá rúmlega 20 prósent af fylgi sínu upp í rúmlega 80 prósent frá stuðningsfólki aðildar.
Á höfuðborgarsvæðinu er stuðningur við aðild mjög afgerandi. Á landsbyggðinni er hlutfallið lægra en eigi að síður eru fleiri með en á móti. Þar gætir sennilega áhrifa frá vaxandi ferðaþjónustu.
Dreifing
Þrátt fyrir formlega andstöðu VG gegn aðild eru fleiri kjósendur þess með henni en á móti. Framsókn var stuðningsflokkur aðildar fyrir 13 árum en er nú á móti. Samt er rúmlega þriðjungur kjósenda hennar hlynntur aðild.
Þegar horft er til þess að stuðningur við aðild er meiri á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni er ljóst að þar er afgerandi meirihluti kjósenda VG fylgjandi aðild. Eins er líklegt að hátt í 40 prósent stuðningsfólks Framsóknar á því svæði séu með aðild og nokkru hærra hlutfall þeirra, sem taka afstöðu.
Ætla má að æ erfiðara verði að virða sjónarmið svo stórs hluta kjósenda að vettugi.
Hátt eða lágt?
Rúmlega fimmtungur kjósenda Sjálfstæðisflokksins styður aðild. Menn geta velt því fyrir sér hvort það er hátt hlutfall eða lágt.
Hafa má í huga að út á svipað heildarfylgi í alþingiskosningum hefur flokkurinn haft helmings áhrif í ríkisstjórn í áratug.
Í því ljósi er erfitt að segja að þetta hlutfall sé svo lágt að dæma eigi það fólk með öllu til áhrifaleysis um þetta mál.
Farvegur
Full aðild snýst um einhverja mestu hagsmuni Íslands bæði í augum þeirra sem eru með og á móti. Lýðræðislega klípan er sú að stærri hluti þjóðarinnar er nú með en meirihluti þingmanna á móti. Hvort tveggja þarf að virða.
Þetta gerist vitaskuld með fjölmörg mál. En klípan er alvarleg fyrir þá sök að svo miklir hagsmunir eru í húfi. Spurningin er stærri en svo að unnt sé að láta henni ósvarað.
Lýðræðið býr yfir farvegi til að leysa stjórnskipulegar þverstæður af þessu tagi. Það er þjóðaratkvæði.
Það er ekki gallalaus leið. Hitt er hættulegra lýðræðinu ef hún er útilokuð eða reynt verður áfram að kæfa umræðuna með fullyrðingum um að enginn vilja stíga lokaskrefið til fullrar aðildar að Evrópusambandinu.