30 júl Gjaldtaka af auðlind
Ég man eftir viðtali við kvikmyndaleikara sem sagðist aldrei hætta að undra sig á að eftir því sem hún yrði ríkari, því minna þyrfti hún að borga. Það væru alltaf einhverjir aðrir tilbúnir til að taka upp veskið. Ég veit ekki alveg af hvaða rótum svona auðmannadekur er sprottið. Kannski er það aðdáun, kannski minnimáttarkennd. Kannski eitthvað annað? Ég hef heldur ekki fengið skynsamlega skýringu á því af hverju aftur og aftur koma upp mál þar sem íslensk stjórnvöld heykjast á því að krefja auðmenn um eðlilegt gjald fyrir veitta þjónustu, að ég tali nú ekki um nýtingu á þjóðarauðlindum.
Undanfarna daga hafa fjölmiðlar flutt fréttir af því að fimm daga stæði fyrir litla einkaþotu á Reykjavíkurflugvelli kosti minna en stæði fyrir bíl í bílakjallara í miðbænum. Og hvernig það er allt að átta sinnum ódýrara að leggja einkaþotu þar heldur en á sambærilegum flugvöllum á öðrum Norðurlöndum.
Ef stærri vél, 42 tonna einkaþotu, er lagt á Reykjavíkurflugvelli í sólarhring kostar það um það bil 65 þúsund krónur. Þá eru fyrstu sex klukkutímarnir ekki taldir með. Að sögn Isavia eru þeir gjaldlausir til að flugvélar sem sinna sjúkraflutningi séu ekki rukkaðar um stæðisgjöld. Ekki fylgir sögunni af hverju er ekki hægt að veita slíkum vélum undanþágu, þó rukkað sé frá þeirri stundu sem einkaþoturnar lenda. Ekki sex tímum síðar. Sama gjald á Keflavíkurflugvelli er um 70 þúsund krónur. Á Arlanda-alþjóðaflugvellinum í grennd við Stokkhólm kostar sólarhringsdvöl fyrir 42 tonna vél um 215 þúsund krónur. Á Bromma-flugvellinum, sem er innanlandsflugvöllur í útjaðri Stokkhólms, kostar dvölin hins vegar meira en 400 þúsund krónur á sólarhring.
Samkvæmt fréttum er reiknað með að um 900 einkaþotur lendi á Reykjavíkurflugvelli í ár. Þessu fylgja vel þegin viðskipti fyrir ferðaþjónustuna. Ég ætla að láta umræðu um umhverfisáhrif og áhættu bíða annars tíma. Það segir sig hins vegar sjálft að flestir farþegarnir eru vel efnaðir og myndu ekki láta hærri stæðisgjöld koma í veg fyrir Íslandsferðina. Hver eru þá rökin fyrir því að eigendum einkaþotna eru boðin stæði á innanlandsflugvellinum í miðri Reykjavík, á dýrasta og eftirsóttasta bletti landsins, á útsöluverði? Af hverju verða markaðssjónarmiðin út undan í stefnu stjórnvalda, þegar auðmenn eiga í hlut? Þetta lítur út fyrir að vera skólabókardæmi um vanhæfni þegar litið er til almannahagsmuna en má kannski kalla gargandi snilld þegar sérhagsmunirnir eru undir.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. júlí 2022