Hlut­verk stjórn­mála er að verja al­manna­hags­muni

Í umræðu um ítök stórútgerðarinnar þurfa stjórnmálin að muna hvert þeirra hlutverk er; að standa með, og verja, almannahagsmuni. Tíu stærstu útgerðirnar eru nú með um 70% kvótans. Árið 2020 var þetta hlutfall um 50%. Margar útgerðir nálgast kvótaþakið og sumar þeirra eru jafnvel komnar yfir hámarkið, ekki síst ef tengsl milli útgerða eru metin eins og ætti að meta þau til að lýsa raunverulegu eignarhaldi.

Við kaup Síldarvinnslunnar á Vísi lýsti forsætisráðherra yfir áhyggjum af samþjöppun í sjávarútvegi og vísaði til samfélagslegrar ábyrgðar fyrirtækja í sjávarútvegi. Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra, sem áður var sjávarútvegsráðherra, talar um að tími sé kominn á gjörbreytta gjaldtöku fyrir afnot af auðlindinni. Ríkisstjórnin sem formenn VG og Framsóknar sitja báðir í hefur hins vegar haft 5 ár til að bregðast við stöðunni en ekkert gert. Samþjöppunin á sér núna stað fyrir framan nefið á Svandísi Svavarsdóttur nýjum sjávarútvegsráðherra sem tjáir sig ekki um málið. Hún er upptekin af strandveiðikerfinu.

Viðreisn hefur á síðustu árum flutt frumvarp sem tekur einmitt á samþjöppun í sjávarútvegi. Í því eru lagðar til reglur um dreifða eignaraðild stærstu fyrirtækja, reglur til að hindra að farið sé í kringum hámarksaflahlutdeild og reglur um aukið gegnsæi. Viðreisn hefur sömuleiðis flutt frumvörp um tímabundinn veiðirétt, sem er grundvallaratriði til að gefa hugtakinu þjóðareign einhverja þýðingu. Flokkurinn hefur staðið að frumvörpum um sanngjarnari gjaldtöku fyrir einkarétt til fiskveiða. Ekkert þessara mála hefur hins vegar fengið afgreiðslu á Alþingi.

Ómur af fortíðinni?

Átakalínurnar milli stjórnmálaflokka eru hvergi skýrari en hér. Ríkisstjórnarflokkarnir þrír hafa undanfarin fimm ár allir í verki stutt óbreytt ástand. Sjálfstæðisflokkurinn, sem í orði kveðnu er flokkur markaðarins, berst hvergi harðar en hér gegn markaðsleið og vill frekar sjálfur ákveða hversu hátt veiðigjald er greitt fyrir afnot af fiskimiðunum. Varðstaða um þetta kerfi getur aldrei þjónað almannahagsmunum. Hagsmunum hverra er þá þjónað?

Mikill meirihluti landsmanna telur núverandi útfærslu kerfisins ósanngjarna. Um 77% þjóðarinnar vilja að útgerðir landsins greiði markaðsgjald fyrir afnot af fiskveiðiauðlindinni skv. skoðanakönnun Gallup. Um fá mál er þjóðin jafn einhuga. Fólk upplifir réttilega að kerfið í kringum veiðiréttinn er ekki í þágu almannahagsmuna, enda verður almenningur af milljörðum á ári hverju með þessu fyrirkomulagi.

Formaður Sjálfstæðisflokksins segir núna að áhyggjur af byggða­röskun og þessum samfélagslegu hagsmunum sem eru í húfi séu „ómur af fortíðinni“. En getur ekki verið að það séu einmitt sjónarmið Sjálfstæðisflokksins í sjávarútvegsmálum sem eru ómur af fortíðinni?

Þjóðareign hinna fáu

Það vakti á sínum tíma athygli þegar fyrrverandi þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Vilhjálmur Bjarnason og Páll Magnússon, fjölluðu um stöðu Sjálfstæðisflokksins og nefndu sjávarútvegsstefnuna sérstaklega í því sambandi. Vilhjálmur sagði í grein að vandi flokksins fælist einna helst í því að hann væri eins máls flokkur þar sem „hagkvæmni“ fiskveiðistjórnarkerfisins réði för. Þessi hagkvæmni (sem Vilhjálmur setti í gæsalappir) er vitaskuld hagkvæmni stórútgerðarinnar sem greiðir gjafverð fyrir afnot af fiskimiðunum.

Stefna Viðreisnar er að greitt verði eðlilegt markaðsgjald fyrir aðgang að fiskimiðunum. Það er hin skynsama leið og það er hin réttláta leið. Þetta er sanngjörn leið fyrir þjóðina, fyrir sjómenn og setur heilbrigðar leikreglur fyrir útveginn. Stefna Viðreisnar er jafnframt að setja auðlindaákvæði í stjórnarskrá um að afnot af þjóðareigninni verði tímabundin. Þetta eru þau atriði sem öllu máli skipta í hinu pólitíska samhengi.

Orð og aðgerðir fari saman

Tímabinding réttinda til að nýta náttúruauðlindir í þjóðareign er rauði þráðurinn í lagasetningu um úthlutun þeirra. Undantekningin er sjávarútvegurinn. Í orkulögum er sveitarfélögum til dæmis veitt heimild til að framselja einkaleyfi til að starfrækja hitaveitu um tiltekið tímabil í einu. Í lögum um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu er kveðið á um tímabundin leyfi til allt að 65 ára. Í lögum um fiskeldi er kveðið á um rekstrarleyfi til 16 ára. Frumvarp ríkisstjórnarinnar sjálfrar um Hálendisþjóðgarð sagði óheimilt að reka atvinnustarfsemi í þjóðgarði nema með tímabundnum samningi. Hvers vegna má ekki fara sömu leið með veiðiheimildir sjávarútvegsins? Hvers vegna er tækifærið til að verja almannahagsmuni ekki nýtt?

Yfirlýsingar forsætisráðherra og innviðaráðherra í kjölfar kaupanna hafa verið áhugaverðar. Eðlilegt framhald er að þau, sem forystumenn í ríkisstjórn, sýni þennan vilja sinn nú í verki. Innviða­ráðherra skilur að raunverulegt auðlindagjald er jákvætt í þágu innviðauppbyggingar. Forsætisráðherra sem hefur áhyggjur af samþjöppun hlýtur að grípa til aðgerða svo ekki þurfi að standa til hliðar og biðla til fyrirtækja um samfélagslega ábyrgð þeirra. Ríkisstjórnin gæti sjálf boðað lagasetningu sem tryggir samfélagslega hagsmuni. Almannahagsmuni.

Það eina sem þarf til er að þau fylgi eftir eigin orðum.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 20. júlí 2022