08 júl Nýjan spretthóp, forsætisráðherra
Ríkisstjórn sósíaldemókrata í Danmörku náði fyrir skömmu víðtæku samkomulagi á þjóðþinginu um framgang aðgerða í loftslagsmálum. Sá stuðningsflokkur stjórnarinnar sem er lengst til vinstri er þó ekki með.
Annars vegar er um að ræða gjald á losun til þess að skapa græna hvata í atvinnulífinu. Hins vegar er um að ræða ákvörðun um að fjórfalda orkuöflun með vindorku á landi og fimmfalda vindorku úti á sjó á næstu átta árum. Þetta samkomulag á einnig að flýta fyrir því að Danir losni undan gaskaupum frá Rússum.
Erum á eftir öðrum þjóðum
Danska stjórnin hefur setið í tæp þrjú ár. Þetta er í annað skipti sem hún gerir samkomulag við stjórnarandstöðuna um aðgerðir í loftslagsmálum. Enda getur þverpólitísk samstaða verið dýrmæt. Skilaboðin til atvinnulífsins eru skýr. Það veit hvað það getur gengið að mikilli orku til orkuskipta og innan hvaða tímamarka.
Aðstæður eru með öðrum hætti hér heima. Ríkisstjórn undir forystu VG hefur setið í tæp fimm ár. Nú í vor viðurkenndi umhverfisráðherra að Ísland stæði að baki þeim þjóðum í loftslagsmálum sem við viljum helst taka mið af.
Eins og kunnugt er var spurningum um orkuöflun til orkuskipta ekki svarað með afgreiðslu rammaáætlunar um miðjan júní.
Samfélagssátt um auðlindagjald
Forsætisráðherra sagði svo í þjóðhátíðarræðu sinni að lengra yrði ekki haldið með öflun vindorku til orkuskipta fyrr en samstaða hefði náðst um að samfélagið fengi réttmætan hlut af auðlindaarðinum.
Okkur brá nokkuð þegar við heyrðum þennan boðskap þar sem við vissum ekki annað en að góð samfélagssátt væri um auðlindagjald af þessu tagi rétt eins og í sjávarútvegi.
Auðlindagjald í sjávarútvegi hefur nefnilega hvorki strandað á samfélaginu né á vilja meirihluta þingmanna. Svo það sé skýrt. Forsætisráðherra veit best á hvaða skeri það mál hefur strandað.
Einmitt í því ljósi var ánægjulegt að heyra svar umhverfisráðherra þegar Þorbjörg Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, spurði í umræðuþætti þann 19. júní um afstöðu hans til auðlindagjalds. Ráðherrann lýsti án hiks yfir eindregnum stuðningi og sagðist vilja, rétt eins og Viðreisn hefur ítrekað lagt til, að byggðarlögin fengju að njóta auðlindagjaldsins.
Þörf á skjótum viðbrögðum
Rétt er í þessu sambandi að minna á að í grænu skýrslu umhverfisráðherra frá í mars er góð grein gerð fyrir forsendum gjaldtöku af vindorku. Sú undirbúningsvinna liggur því fyrir.
Í ljósi þeirrar alvarlegu stöðu sem umhverfisráðherra hefur lýst, að Ísland dragist nú aftur úr öðrum þjóðum í loftslagsmálum, má það ekki gerast að misskilningur um skort á samstöðu um auðlindagjald af vindorku leiði til meiri tafa en þegar hafa orðið á nauðsynlegum framkvæmdum.
Atvinnulífið hér eins og annars staðar þarf skýr skilaboð. Þar bíða margir eftir skýrri línu til að geta hafist handa um að ná markmiðum um orkuskipti og græna iðnbyltingu.
Eftir umræður í þingflokki Viðreisnar höfum við skrifað forsætisráðherra bréf til þess að bregðast við þessum aðstæðum.
Þar leggjum við til að forsætisráðherra skipi þegar í stað spretthóp til þess að semja frumvarp til laga um auðlindagjald vegna virkjunar vindorku. Spretthópurinn með almannahag að leiðarljósi fái tvo mánuði til að skila tillögum svo Alþingi geti þannig afgreitt þær á haustþingi í september.
Spurning um vilja
Nefnd umhverfisráðherra skilaði á aðeins tveimur mánuðum fyrr á árinu viðamikilli skýrslu um nauðsynlega orkuöflun með tilliti til markmiða í loftslagsmálum. Þar er meðal annars skilgreint á hvaða grundvelli megi leggja slíkt gjald á.
Græna skýrslan var mun viðameira verk en felst í útfærslu á frumvarpi af þessu tagi. Fyrst unnt var að vinna hana á tveimur mánuðum er vel gerlegt að semja frumvarp um auðlindagjald á jafn löngum tíma. Þetta er fyrst og fremst spurning um vilja. Ekki tafaleiki.
Viðreisn er reiðubúin að leggja lið við undirbúning málsins og stuðla að öruggri afgreiðslu þess á Alþingi. Aðalatriðið er að þetta atriði má ekki tefja framgang nauðsynlegrar orkuöflunar með vindorku þannig að við getum náð markmiðum um orkuskipti fyrir árið 2040.
Skilaboðin til forsætisráðherra eru skýr. Hafi einhvern tímann verið bæði tilefni og tækifæri til að skipa spretthóp er það núna um þetta mál.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. júlí 2022