Sæti 56

Þorsteinn Pálsson

Samkeppnishæfni landsins er grundvöllur framfara. Samanburðarmælingar á henni taka til margra þátta eins og stjórnar efnahagsmála, innviða, menntunar og vísindarannsókna.

Utanríkisviðskipti eru stærri hluti af íslenskum þjóðarbúskap en almennt er meðal grannlandanna. Samkeppnishæfnin skiptir því meira máli fyrir íslenskan almenning en flestar þær þjóðir, sem við berum okkur helst saman við.

Öfugsnúið

Í þessu ljósi er það svolítið öfugsnúið að í grannlöndunum er samkeppnishæfni ríkari þáttur í pólitískri umræðu en hér.

Í síðustu kosningum tóku Samtök atvinnulífsins virkan þátt í kosningaumræðunni. Höfuðboðskapur þeirra var að skipta um stefnu í heilbrigðismálum. En þau töluðu ekkert um samkeppnishæfni atvinnulífsins.

Það gerði ASÍ ekki heldur þó að hagsmunir umbjóðenda þess velti líka á samkeppnishæfni Íslands.

Viðskiptaráð hefur aftur á móti sinnt þessu mikilvæga viðfangsefni um langan tíma, en því miður hvorki náð eyrum stjórnmálaflokka né annarra hagsmunasamtaka í nægjanlega ríkum mæli.

Framför

Í júní kynnti Viðskiptaráð úttekt IMD-háskólans í Sviss á samkeppnishæfni 63 ríkja. Hún er sögð vera umfangsmesta könnun af þessu tagi í heiminum.

Heildarniðurstaðan er að meðaltali góð fyrir Ísland. Við erum í 16. sæti á milli Þýskalands og Kína. Aftur á móti erum við talsvert neðar en önnur Norðurlönd, sem við jöfnum okkur þó helst til um lífskjör. Það er gul viðvörun.

Síðustu 10 ár höfum við bætt stöðu landsins á mörgum sviðum en fallið niður á öðrum. Mestar framfarir hafa orðið í aukinni skilvirkni atvinnulífs og opinberra aðila. Í samfélagslegum innviðum höfum við lítils háttar bætt okkur í menntun en ekki náð að bæta vísindalega innviði nægjanlega.

Samkvæmt mati svissneska háskólans hafa skattastefna og fjármál ríkis og sveitarfélaga verið hemill á meiri framfarir í opinberri skilvirkni.

Afturför

Þegar kemur að efnahagslegri frammistöðu höfum við á hinn bóginn dregist verulega aftur úr öðrum þjóðum síðustu 10 ár. Þar er Ísland í 56. sæti og hefur fallið niður um tólf sæti.

Þetta er rautt spjald á stjórn efnahagsmála.

Við höfum bætt okkur lítillega í landsframleiðslu á hvern vinnandi mann og atvinnustig er hærra. Varðandi samanburð á verðlagi er Ísland aftur á móti verr statt en fyrir áratug.

En mestu skiptir að við erum allt að 30 sætum neðar en önnur Norðurlönd þegar kemur að alþjóðaviðskiptum og erlendri fjárfestingu. Þetta eru þeir lykilþættir í þjóðarbúskap okkar, sem mestu skipta.

Lífskjör, sem jafnast á við önnur Norðurlönd, verða ekki sjálfbær til lengdar meðan alþjóðaviðskipti og erlend fjárfesting eru í botnsætum í víðtækum samanburði af þessu tagi.

Dvínandi tiltrú

Hagfræðingar Viðskiptaráðs segja í grein í Vísbendingu að þetta bendi til að tiltrú umheimsins á íslenska hagkerfið fari dvínandi. Það er alvarlegt umhugsunarefni.

Engin ein tæknileg skýring er á þessari öfugþróun. Fjármálastjórnin hefur ekki aukið traust og í einhverjum mæli er regluverkið hindrun.

En óstöðugur gjaldmiðill, sem er ónothæfur utan lögsögumarka, er augljóslega stór Þrándur í götu bættrar stöðu í alþjóðaviðskiptum og frekari erlendra fjárfestinga. Í raun segir það alla söguna að stærsta ríkisfyrirtækið, Landsvirkjun, notar ekki ríkisgjaldmiðilinn.

Það er eitt helsta viðfangsefni stjórnmálanna og vinnumarkaðarins að leysa umræðuna um þau vandræði, sem gjaldmiðillinn veldur, úr viðjum ríkjandi þöggunar.

Atvinnulífið sjálft ræður miklu um framvinduna. En pólitísk stefna skiptir þó sköpum.

Ný hugsun

Við höfum náð góðum árangri á mörgum sviðum, sem samanburðurinn nær til. Það er stjórn efnahagsmála, sem hefur brugðist. Vandinn snýst ekki um hæfileika þeirra, sem ábyrgðina bera. Afturförin liggur í hugmyndafræðinni.

Á samanburðartímanum síðustu tíu ár hefur íhaldshugmyndafræði verið um of ráðandi. Það hefur skort frjálslynda hugsun, trú á fjölþjóðlega samvinnu og skilning á mikilvægi almannahagsmuna. Næstu tíu ár þarf sannfæring fyrir þessum hugmyndum að verða ríkjandi í ríkisstjórn en ekki víkjandi.

Pólitísk stefnubreyting er óhjákvæmileg.

Ný hugsun er forsenda árangurs. Fyrir næstu kosningar þarf að skapa meira rými fyrir frjálslynda hugmyndafræði. Sú rökræða ætti að hefjast strax.

Ísland á að standa jafnfætis öðrum Norðurlöndum á þessu sviði sem öðrum.

Greinin birtist fyrst 21. júlí 2022