Sam­fé­lags­leg á­byrgð

Loksins:

  • For­sætis­ráð­herra segist hafa á­hyggjur af sam­þjöppun í ís­lenskum sjávar­út­vegi.
  • For­sætis­ráð­herra hefur einnig á­hyggjur af skorti á sam­fé­lags­leg á­byrgð í sjávar­út­vegi.
  • For­sætis­ráð­herra hefur ofan á allt á­hyggjur af til­flutningi auðs í sjávar­út­vegi.

Þetta eru við­brögð for­sætis­ráð­herra eftir kaup Síldar­vinnslunnar á Vísi í Grinda­vík.

Þjóðin hefur lengi haft þessar á­hyggjur. Hvers vegna hellast þær allt í einu yfir for­sætis­ráð­herra á þessum tíma­punkti?

Í við­tölum höfðar for­sætis­ráð­herra til sam­fé­lags­legrar á­byrgðar sjávar­út­vegsins. Ríkis­stjórnin hefur aftur á móti borið sam­fé­lags­lega á­byrgð á mál­efnum landsins í heilt kjör­tíma­bil og einum þing­vetri betur.

Er ekki jafn rík þörf á að skír­skota til þeirrar á­byrgðar? Er ekki rétt að skoða hvað ríkis­stjórnin hefur að­hafst í allan þennan tíma.

Við­reisn flutti á síðasta kjör­tíma­bili og aftur á þessu, frum­varp sem miðaði að því að létta á­hyggjur vegna sam­þjöppunar í sjávar­út­vegi. Þar voru reglur um aukið gegn­sæi, virkar reglur til að hindra að farið verði í kringum há­marks afla­hlut­deild og reglur um dreifða eignar­aðild stærstu fyrir­tækja.

Þegar ríkis­stjórnin lét í­trekað svæfa þetta mál í nefnd komu ekki fram neinar á­hyggjur.

Við­reisn flutti einnig frum­vörp um tíma­bundinn veiði­rétt. Þegar ríkis­stjórnin svæfði þau í nefnd var engum á­hyggjum lýst.

Við­reisn stóð einnig að frum­vörpum um sann­gjarnari gjald­töku fyrir einka­rétt til fisk­veiða. Þegar ríkis­stjórnar­flokkarnir felldu þær eða svæfðu í nefnd heyrði enginn minnst á á­hyggjur.

Þegar Við­reisn bauðst til þess að sam­þykkja stjórnar­skrár­frum­vörp for­sætis­ráð­herra með þeirri einu breytingu að fram­salið á sam­eign þjóðarinnar yrði tíma­bundið á­kvað for­sætis­ráð­herra að svæfa eigin frum­vörp í nefnd. Engin orð féllu af því ein­stæða til­efni um á­hyggjur.

Á síðasta kjör­tíma­bili og aftur núna er öruggur meiri­hluti fyrir þeim breytingum, sem létta myndu á­hyggjur for­sætis­ráð­herra. Vandinn hér er að hún hefur sjálf kosið að standa með minni­hlutanum, sem engar á­hyggjur hefur.

Það er ein­fald­lega ekki nóg að lýsa á­hyggjum og vísa þeim í nefnd eftir fimm ára sam­fellda stjórnar­setu. Það þarf at­hafnir. Að­eins þannig axlar ríkis­stjórnin sam­fé­lags­lega á­byrgð.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 15. júlí 2022