Þjóðareign, teygjanlegt hugtak

Hvenær kemur skýrslan? Þessa spurningu fékk ég á dögunum þegar þjóðin var enn og aftur minnt á að þjóðareign er teygjanlegt hugtak. Þegar hluti þeirrar þjóðareignar sem felst í fiskveiðikvótanum gekk kaupum og sölum án aðkomu eigendanna við kaup Síldarvinnslunnar á Vísi. Þegar Samherji öðlaðist yfirráð yfir fjórðungi kvóta þjóðarinnar. Þegar kaupendur og seljendur ræddu verðmætaaukningu í kjölfar viðskiptanna sem ekki skilar sér til þjóðarinnar. Og til að vera alveg skýr; það að umrædd fyrirtæki borgi ef til vill hærri tekjuskatt vegna betri afkomu í kjölfar sameiningarinnar er ekki sambærilegt við það að íslensk þjóð fái eðlilegt gjald fyrir að veita afnot af auðlindinni. Ég tala ekki um þegar þau afnot eru ótímabundin líkt og vilji ríkisstjórnarinnar og útgerðarinnar stendur til. Það er kjarni máls.

Í árslok 2020 samþykkti Alþingi einróma beiðni mína um að sjávarútvegsráðherra ynni skýrslu um eignarhald 20 stærstu útgerðarfélaganna í íslensku atvinnulífi. Markmiðið var að veita almenningi mikilvægar upplýsingar um hvernig hagnaði af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar hefur verið varið og sýna ítök stórútgerðarinnar í íslensku samfélagi í krafti nýtingar hennar á þessari sömu auðlind. Þegar skýrslan var loksins birt haustið 2021 vantaði alveg í hana upplýsingar um í hvaða fyrirtækjum og atvinnugreinum útgerðarrisarnir hafa fjárfest. Þar með er ekki verið að upplýsa almenning um krosseignatengsl eða ítök útgerðarinnar í tilteknum kimum íslensks samfélags eins og ég bað um og Alþingi samþykkti.

Til viðbótar við þessi óforskömmuðu vinnubrögð ráðherra er ástæða til að nefna tvennt. Í fyrsta lagi það að umbeðnar upplýsingar voru í skýrsludrögunum vorið 2021 en áður en hún var birt undir loks sumars höfðu þau verið ritskoðuð hressilega. Í öðru lagi að þegar nýr ráðherra sjávarútvegsmála tók við ráðuneytinu, í sömu ríkisstjórn, spurði ég hana út í þessi vinnubrögð. Svandís Svavarsdóttir vildi engu svara um verk fyrri ráðherra Kristjáns Þór Júlíussonar, né því hvort hún væri sammála verklaginu. Tveir ráðherrar, sama ríkisstjórn, sama ruglið.

Það er því ekki nema von að ég sé enn spurð að því hvenær skýrslan komi. Skýrslan sem átti að varpa ljósi á raunverulega eign og áhrif þeirra sem hafa ótímabundinn kvóta á íslenskt atvinnulíf og samfélag. Slík skýrsla væri mikilvægt framlag til umræðunnar um hvernig við komum á alvörusátt um sjávarútveginn. Sátt út frá almannahagsmunum, ekki þeim sértæku sem núverandi kerfi passar svo vel upp á með dyggum stuðningi ríkisstjórnarflokkanna þriggja. Er ekki kominn tími til þess að stjórnmálin sameinist um eigin samfélagslegu ábyrgð hér og klári málið? Liggja völdin ekki þar?

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. júlí 2022