19 ágú Dýrkeypt skammsýni
Staðan á Landspítalanum hefur sjaldan ef nokkru sinni verið jafnslæm. Enda hefur Runólfur Pálsson forstjóri lýst því yfir að verði ekki brugðist við sem fyrst fari spítalinn í þrot.
Stærsta áskorunin er að tryggja nægt starfsfólk en þar skapast vítahringur enda hefur Landspítalinn ekki tök á því að taka við fleiri nemendum en hann gerir í dag.
Þegar tækifærin eru takmörkuð bregst unga fólkið við með því að sækja sér menntun erlendis. Sú þróun er ekki neikvæð nema fyrir þær sakir að stór hluti þess skilar sér ekki til baka. Um þriðjungur nýútskrifaðra íslenskra sérfræðinga snýr ekki heim að námi loknu. Í raun er Ísland langefst Norðurlanda í útflutningi á eigin ríkisborgurum. Það segir sína sögu og er áhyggjuefni, sérstaklega þegar þjóðin eldist hratt. Við vinnum ekki á mönnunarvandanum meðan ungt heilbrigðismenntað fólk sér hag sínum ekki best borgið með því að búa og starfa á Íslandi.
Þetta er ein alvarlegasta birtingarmynd þess hversu illa stjórnvöld hafa ráðið við það að hugsa til lengri tíma. Þrátt fyrir að umsvif hins opinbera hafi aukist sem aldrei fyrr skilar það sér ekki í umbótum á vanda Landspítalans eða annarri bættri þjónustu við almenning. Langtímahugsun er á undanhaldi.
Erfiðleikar Landspítalans í dag eru afleiðingar áratuga af röngum pólitískum ákvörðunum. Niðurskurði á fjárframlögum, andstöðu við einkarekna heilbrigðisþjónustu og fáum tækifærum til rannsókna og þróunar á Landspítalanum. Spítalinn, sem eitt sinn var bestur háskólasjúkrahúsa á Norðurlöndum hvað viðkemur vísindum, hefur fallið niður í botnsæti. Í stað þess að gera Landspítalanum betur kleift að sinna hlutverki sínu sem háskólasjúkrahús hefur þjónusta sem aðrir aðilar hafa sinnt, og gert það vel, verið í auknum mæli færð undir hatt Landspítalans, sem fyrir hefur verið sniðinn allt of þröngur stakkur.
Nú eru framtíðarhorfur Landspítalans dimmar og fyrirsjáanlegt að það verði mun dýrara að bæta úr rekstrarvanda hans en ef brugðist hefði verið við tímanlega. Besti tíminn til þess að bregðast við vanda Landspítalans var fyrir áratug en næstbesti tíminn í dag – og þá vonandi á grundvelli raunverulegrar langtímahugsunar.
Heimilin í landinu þurfa stöðugt að hafa hugann við framtíðina. Gera áætlanir varðandi húsnæðiskaup, menntun og störf, fjölskyldu, ferðalög, svo fátt eitt sé nefnt. Þessar áætlanir ganga vissulega ekki alltaf eftir og oft taka þær breytingum en það er falið í eðli skipulagningar til lengri tíma. Við gerum áætlanir og sjáum flest mikilvægi þess að horfa á heildarmyndina. Hvers vegna er þá lögmál hjá ríkisstjórn landsins að líta aldrei lengra en til örfárra ára í senn? Þessu þarf að breyta!
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. ágúst 2022