30 ágú Er ekki bara best að treysta þjóðinni?
Á friðartímum eru varnarmál ekki efst í huga fólks. Það er ekki fyrr en örygginu er ógnað sem við leiðum flest hugann að því hver merking öryggis er. Og þá verður augljóst að í raun hvílir allt annað á því að við búum við nægilegt öryggi. Þegar stríð er aftur veruleiki í Evrópu verða þjóðarleiðtogar þess vegna að ræða hvaða áhrif breytt heimsmynd hefur á hagsmuni þjóðar. Innrás Rússlands í Úkraínu er blóðug árás á frjálst og fullvalda ríki en hún er um leið árás á alla Evrópu. Það sjáum við birtast í samstöðunni með Úkraínu, efnahagsþvingunum af áður óþekktum þunga og sögulegum aðgerðum til stuðnings Úkraínu. Samstaðan á Alþingi hefur verið sterk. En eftir stendur að ræða hagsmuni Íslands í kjölfar breyttrar heimsmyndar.
Hagsmunamat í breyttum heimi
Stríðið hefur haft mikil áhrif á evrópsk stjórnmál og hagsmunamat Evrópuþjóða. Finnar og Svíar tóku í kjölfarið sögulegt skref og sóttu um aðild að NATO og þjóðaratkvæðagreiðsla fór fram í Danmörku þar sem danska þjóðin ákvað að taka þátt í varnarsamstarfi Evrópusambandsins. Samtal fór fram í nágrannaríkjunum vegna þess að hagsmunir ríkjanna kröfðust þess. Þetta samtal fór ekki bara fram vegna þess að allir stjórnmálaflokkar væru allir sammála eins og virðist vera krafa ríkisstjórnarinnar. Það megi bara ræða Evrópumál þegar meirihluti er fyrir því að sækja um aðild á Alþingi.
Viðhorf almennings hafa breyst og nú er rúmur helmingur þjóðarinnar hlynntur aðild að Evrópusambandinu. Stuðningur við aðild er alltaf að aukast og aukast. Árás Rússlands á Úkraínu hefur aukið skilning á að nauðsyn þess að standa vörð um frið og frelsi í Evrópu. Ættu ekki allir stjórnmálaflokkar að sameinast um að fram fari pólitískt samtal um áhrif stríðsins í Evrópu á öryggis- og varnarhagsmuni Íslands? Er ekki ástæða til að ræða einmitt núna hvað það þýðir fyrir herlaust smáríki að tilheyra NATO en ekki Evrópusambandinu? Væri það ekki okkur í hag að ræða hvað frekari Evrópusamvinna þýðir fyrir Ísland og meta kosti og ókosti aðildar út frá því? Á Íslandi hefur samt sem áður engin raunveruleg rökræða átt sér stað um nýja stöðu landsins í breyttum heimi og Evrópumálin hafa litla sem enga umræðu fengið í því samhengi. Þessir grundvallarhagsmunir eru ekki til umræðu við ríkisstjórnarborðið.
Þögnin er engum í hag
Svör við stórum spurningum eru ekki endilega einföld en umræðan verður að eiga sér stað á Íslandi eins og annars staðar. Við eigum allt undir því að alþjóðalög séu virt. Þeir stjórnmálaflokkar sem eru á móti þátttöku Íslands í ESB eiga ekki að forðast þetta samtal eða hræðast það. Þessir flokkar ættu miklu frekar að fagna rökræðunni. Það er fáránlegt að stinga höfðinu bara í sandinn með línum um að umræða um Evrópumál séu ekki á dagskrá. Og að Evrópuhugsjónin eigi ekki erindi við fólk í landinu. Við ættum að fylgja fordæmi nágrannaþjóða okkar sem hafa leitað samráðs við almenning og tekið þýðingarmikil skref til að tryggja betur eigin hagsmuni.
Afstaða Viðreisnar er að hagsmunum íslensku þjóðarinnar sé betur borgið í nánara samstarfi við aðrar Evrópuþjóðir innan Evrópusambandsins – þaðan sem svo margar réttarbætur hafa þegar komið. Meira efnahags- og viðskiptasamstarf myndi hafa mikla þýðingu fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu og á þessum óvissutímum skiptir öllu máli að efla samvinnu á á sviði öryggis- og varnarmála. Við getum styrkt stöðu okkar innan NATO á sama tíma og við eflum samstarf okkar við þjóðirnar innan Evrópusambandsins. Eitt útilokar ekki annað í þessu samhengi heldur þvert á móti. Við höfum talað fyrir því að taka þetta síðasta skref með fullri aðild Íslands að Evrópusambandinu en um leið er afstaða okkar alveg skýr um að þessa stóru ákvörðun á þjóðin sjálf að taka. Við viljum að þjóðin fái að meta og ákveða það sjálf hvort hún telur hagsmunum sínum betur borgið þar inni eða fyrir utan.
Mikilvægi samvinnunnar
Eftir síðari heimsstyrjöld skildu lýðræðisþjóðirnar að friður yrði ekki bara tryggður með hervörnum heldur líka einfaldlega með náinni samvinnu. Það gerir Evrópuhugsjónina svo fallega. Evrópusamvinnan hefur tryggt Evrópu frið í áratugi. Evrópusambandið er í grunninn friðarsamband og nágrannaríki okkar í Evrópu eru ekki í neinum vafa um mikilvægi samstarfsins fyrir eigið öryggi. Nágrannaríki Rússlands í Evrópu sem núna sækjast eftir aðild skilja það líka. Samtalið um hagsmunamat hefur farið fram í nágrannaríkjunum. Það hefur styrkt stöðu þessara ríkja sem nú starfa eftir skýrari stefnu en áður. Þar heyrist ekki að þjóðaratkvæðagreiðslur séu tóm vandræði eins og hér hefur verið sagt.
Hvað er svona hættulegt við umræðuna? Eða við það að þjóðin fái að taka ákvörðun í þjóðaratkvæðagreiðslu? Það er þvert á móti þögnin sem er hættuleg. Er ekki bara best að treysta þjóðinni?