29 ágú Hættum þessu!
Nýsköpun í heilbrigðisþjónustu er ein af megináherslum Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur nýsköpunarráðherra. Síðasta vor kynnti ráðherrann sérstakt átak þar að lútandi og sagði þá að veggir hins opinbera væru of háir og lokaðir fyrir hugmyndum nýsköpunarfyrirtækja. Leggja ætti sérstaka áherslu á stuðning við samstarf milli hins opinbera og einkaaðila.
Síðan hefur það helst gerst að Embætti landlæknis neitar að una úrskurði kærunefndar útboðsmála, sem úrskurðaði litlu frumkvöðlafyrirtæki í vil gegn embættinu, vegna skorts á útboði á þjónustu með tæknilausnir í heilbrigðisgeiranum.
Samkvæmt lögum um opinber innkaup ber að bjóða út öll innkaup hins opinbera á vörum og þjónustu yfir 15,5 milljónum króna. Frá því að lögin voru sett hlaupa kaup embættis landlæknis á tæknilausnum í heilbrigðisgeiranum á hundruðum milljóna króna, jafnvel milljörðum. Í niðurstöðu kærunefndarinnar segir að engar undanþágur frá útboðsskyldu gætu átt við um þessi kaup landlæknisembættisins. Um þau hefðu ekki verið gerðir viðhlítandi skriflegir samningar.
Í úrskurðinum var lögð stjórnvaldssekt á embætti landlæknis upp á 9 milljónir, auk þess sem embættinu var gert að greiða 2 milljónir í málskostnað til hugbúnaðarfyrirtækisins Köru Connect. Þá var lagt fyrir embættið að bjóða út þróun hugbúnaðar á þeim kerfum sem um ræðir, m.a. þróun fjarfundalausnar til notkunar á heilbrigðissviði.
Í tilkynningu frá Embætti landslæknis segir að „embættið harmi að þurfa að kæra Köru Connect.“ Vissulega gera lög ráð fyrir að málsaðilar séu kærðir svo hnekkja megi úrskurði. Það þarf hins vegar auðvitað ekki að reyna að fá úrskurði hnekkt. Önnur nálgun væri einfaldlega að una úrskurðinum og gyrða sig í brók þegar kemur að samskiptum hins opinbera og einkaaðila, svo vísað sé í orð nýsköpunarráðherra. Brjóta niður veggina.
Það er beinlínis niðurdrepandi að lesa frásögn Þorbjargar Helgu Vigfúsdóttur, framkvæmdastjóra Köru Connect, af málinu. „Það er verið að tefja eða stöðva kröfu um að þurfa að bjóða út. Ég hugsa að þetta stöðvi þróun og nýsköpun í heilbrigðisumhverfinu. Það eru þegar mjög fá fyrirtæki sem þrífast hérna út af þessu ástandi. “
Áhersla á aukið samstarf milli hins opinbera og einkafyrirtækja liggur hér ekki beint í loftinu og það er mjög miður. Ávinningurinn er augljós og margvíslegur. Þess utan kostar núverandi fyrirkomulag skattgreiðendur offjár þar sem ríkið er í umfangsmikilli samkeppni við einkafyrirtæki á markaði án nauðsynlegs gegnsæis og aðhalds.
Stjórnvöld þurfa svo að hætta málaferlum gegn einstaklingum og einkaaðilum þegar úrskurðir falla hinu opinbera í óhag. Hvort sem um er að ræða ráðherra eða opinberar stofnanir. Þetta er ekki í lagi.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. ágúst 2022