Of stór biðflokkur

Þorsteinn Pálsson

Fyrir viku greindi Viðskipta-Mogginn frá þeim stórtíðindum að verðtrygging hefði hækkað skuldir ríkissjóðs það sem af er þessu ári um 100 milljarða króna. Það minnir okkur á að ríkisstjórnin var ekki mynduð til að treysta efnahagslegan stöðugleika heldur pólitískan. Áhugavert er að bera hana saman við Viðreisnarstjórnina á sjöunda áratugnum, sem þykir í sögulegu samhengi hafa tekið öðrum fram um pólitískan stöðugleika.

Kerfisbreytingar

Viðreisnarstjórnin var að vísu ekki mynduð um pólitískan stöðugleika heldur kerfisbreytingar. Innflutningshöft voru afnumin, uppbótakerfið lagt af, þátttaka í fjölþjóðlegu gjaldmiðlasamstarfi innan Bretton Woods var virkjuð og aðild að EFTA ákveðin og algjör bylting gerð í orkuöflun og iðnaði. Pólitíski stöðugleikinn varð smám saman ávöxtur af samstöðu stjórnarflokkanna um þessi árangursríku umskipti. Jaðarflokkarnir í núverandi stjórn tryggja pólitískan stöðugleika hins vegar með samstöðu um að setja stærstu mál samfélagsins í biðflokk til úrlausnar fyrir næstu ríkisstjórn.

Skuldavandi í biðflokk

Það voru Samtök atvinnulífsins sem fyrst komust þannig að orði í gagnrýni á ríkisstjórnina að hún væri að skjóta skuldavandanum fram á næsta kjörtímabil fyrir nýja ríkisstjórn til að leysa. Í tvígang hefur þetta verið þungamiðjan í gagnrýni atvinnulífsins á fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar vegna þess afstöðuleysis, sem þar birtist til lausnar á skuldavanda ríkissjóðs. Viðskiptaráð hefur svo sagt að með þessu sé ríkisstjórnin að kynda undir verðbólgu. Málamyndabreytingar, sem gerðar voru rétt fyrir þinglok, breyta ekki þessari stóru mynd. Pólitískur stöðugleiki er tryggður með því að setja úrlausn skuldavandans í biðflokk fyrir næstu ríkisstjórn.

Loftslagsmarkmið í biðflokk

Ríkisstjórnin hefur sett sér metnaðarfyllri markmið í loftslagsmálum en flest önnur ríki. Í heil fimm ár hefur forsætisráðherra talað um Ísland sem forysturíki á þessu sviði í heiminum öllum.

Á loftslagsdeginum í vor sagði umhverfisráðherra hins vegar að Ísland stæði að baki öðrum þjóðum. Ungir umhverfissinnar gáfu stjórninni síðan falleinkunn í loftslagsmálum. Í grænni skýrslu trúnaðarmanna ríkisstjórnarinnar segir að hún hafi ekki fylgt eftir markmiðum um orkuskipti með ákvörðunum um orkuöflun. Loftslagsráð segir að enn standi upp á ríkisstjórnina að skýra hvernig hún ætlar að ná losunarmarkmiðunum. Umhverfisráðherra segir gagnrýnina rétta en höfðar til almennings og atvinnulífsins um að taka forystu. Við ríkisstjórnarborðið er þetta risavaxna verkefni eftir fimm ára samstarf á leið í biðflokk fyrir næstu stjórn.

Réttlæti í biðflokk

Matvælaráðherra segist brenna fyrir réttlæti í sjávarútvegi og forsætisráðherra hefur þungar áhyggjur. Lítill ágreiningur er um grundvöll fiskveiðistjórnunarkerfisins. Réttlætið snýst um hitt að tímabinda veiðiréttinn, ákveða gjald í samræmi við verðmæti þess einkaréttar og takmarka samþjöppun. Í fimm ár hafa forsætisráðherra og matvælaráðherra hins vegar í þágu pólitísks stöðugleika hallað sér að þeim sem ekki hafa áhyggjur og drepið allar umbótatillögur. Það þarf pólitíska ákvörðun til að höggva á hnútinn. Öll sjónarmið eru þekkt. Samt þótti rétt að koma málinu fyrir í 46 manna nefndakerfi embættismanna, stjórnmálamanna, sérfræðinga og hagsmunagæslufulltrúa. Þetta brennandi réttlætismál matvælaráðherra og áhyggjuefni forsætisráðherra er þannig komið í biðflokk fyrir næstu ríkisstjórn.

Breytt heimsmynd í biðflokk

Grundvöllurinn að efnahagslegu sjálfstæði, pólitísku öryggi og fullveldi landsins byggist á lifandi og virkri þátttöku í fjölþjóðlegu samstarfi á innri markaði ESB og í NATO. Flestar þjóðir Evrópu hafa brugðist við breyttri heimsmynd með því að skjóta sterkari stoðum undir fjölþjóðlega samvinnu í efnahagsmálum og varnarmálum. Utanríkisráðherra hefur tryggt að við framkvæmum þær ákvarðanir, sem NATO tekur og að okkur snúa. En við getum ekki tekið frumkvæði. Það myndi raska pólitískum stöðugleika. Eins er með fjölþjóðlegt efnahagssamstarf. Ísland hefur fallið niður í botnsæti í samkeppnishæfni í alþjóðaviðskiptum og erlendri fjárfestingu. Framfaraskref til að styrkja stöðu Íslands myndu raska pólitískum stöðugleika. Viðbrögð við breyttri heimsmynd eru því í biðflokki fyrir næstu stjórn.

Skaðsemi

Pólitískur óróleiki með örum stjórnarskiptum er óæskilegur og jafnvel skaðlegur. Langtíma pólitískur stöðugleiki, sem byggist á því að of mörg stór mál fara í biðflokk fyrir næstu stjórn, getur þó reynst enn skaðlegri.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 4. ágúst 2022