11 ágú Það sem tala þarf um
ASÍ boðar hörð átök á vinnumarkaði.
Eitt aðildarsamband hefur opinberlega lagt fram kröfur. Ekki er vitað hverjar þær eru. Viðbrögð SA eru ókunn. Allt er á huldu um kröfur annarra.
Það eina sem almenningur fær að heyra eru tilkynningar um átök þegar aðeins ellefu vikur eru þar til gildandi samningar renna út og engar efnislegar viðræður hafa átt sér stað svo vitað sé.
Pukur
Þetta pukur með kjarna málsins gerir það að verkum að boðun átaka hljómar eins og þau séu sjálfstætt markmið.
Fjölmiðlaviðtölum um átök fylgir jafnan áeggjan um aðkomu ríkisins. Forsætisráðherra svarar henni með því að vísa til fjölda funda í þjóðhagsráði.
Vandinn er að almenningur veit lítið sem ekkert hvert verkalýðsfélögin eru að fara og alls ekkert um stefnu ríkisstjórnarinnar.
Enginn af talsmönnum stærstu félaga og sambanda í ASÍ talar um að ljúka eigi nýjum samningum um leið og þeir eldri renna út.
Önnur nálgun
Kjarasamningar opinberra starfsmanna opnast fimm mánuðum seinna. Formaður BHM virðist nálgast viðfangsefnið með nýjum hætti. Í grein í Viðskiptablaðinu í síðustu viku segir hann:
„Núverandi ástand kallar að mínu mati á aðra nálgun. Í tveggja stafa verðbólguumhverfi er ekki ásættanlegt að horfa fram á hefðbundinn drátt í gerð kjarasamninga – að það geti liðið allt frá hálfu til eins árs frá því að kjarasamningar renna út þar til nýir liggja fyrir.“
Þetta er metnaðarfullt markmið fyrir umbjóðendur hans. Fari svo að átök og kjarasamningar á almennum markaði dragist á langinn þarf ríkisstjórnin annað hvort að hafna þessu sjónarmiði eða sýna á spilin og segja kjósendum hver efnahags- og kjarastefna hennar er.
Brotalöm
Þar komum við að þeirri kennisetningu að ríkið leiði ekki kjarasamninga af því að grundvöllur þeirra er samkeppnishæfni atvinnulífsins.
Í síðustu almennu kjarasamningum lék ríkisstjórnin hins vegar slíkt lykilhlutverk að þeir voru kynntir í ráðherrabústaðnum. Orðræðan bendir svo til að hlutir séu að falla í þann sama farveg aftur.
Svo er hitt að burtséð frá málflutningi ASÍ þarf að hafa í huga að ráðandi fyrirtæki í SA standa utan krónuhagkerfisins. Hagsmunir þeirra liggja því ekki nema að takmörkuðu leyti í samkeppnisstöðu þess. Þetta er brotalöm í kerfinu.
Það getur einfaldlega farið eftir aðstæðum hvort rétt er að byrja samninga á almenna markaðnum eða þeim opinbera. Það eru efnistökin, sem skipta öllu máli.
Stefna í stað framsals
Kjarni málsins er sá að ríkisstjórnin þarf að hafa skýra efnahags- og kjarastefnu í stað þess að framselja það hlutverk til þjóðhagsráðs.
Hún þarf að segja umbúðalaust hversu mikil eða lítil launahækkun samræmist efnahagslegum markmiðum lýðræðislega kjörinna stjórnvalda.
Til þess að tryggja alvöru framlag ríkissjóðs í baráttunni við verðbólguna þarf hún einnig að fallast á tekjuöflunarhugmyndir Framsóknar í þeim tilgangi að lækka skuldir en ekki til að auka útgjöld, nema vegna þeirra verst settu.
Að auki þarf hún að tala af meira raunsæi en seðlabankastjóri.
Boðskapur seðlabankastjóra er að efnahagslífið og ríkissjóður standi betur en gerist hjá grannþjóðunum. Hann telur þó nauðsynlegt að setja hemil á laun almennings en gagnrýnir ekki launahækkanir til stjórnenda margra fyrirtækja, sem ákveðnar eru á allt öðrum forsendum.
Misvísandi skilaboð af þessu tagi skapa ekki almennan skilning á nauðsyn hófsemi við gerð kjarasamninga.
Veruleikinn
Veruleikinn er aftur á móti þessi:
- Það er kominn halli á viðskipti við útlönd.
- Fyrir stríðið var þegar spáð helmingi minni hagvexti út kjörtímabilið en í ár.
- Ísland þarf að hækka vexti margfalt meir en grannríkin til að hemja sömu verðbólgu.
- Í fjármálaáætluninni segir að Ísland þurfi mun meira aðhald í opinberum rekstri en önnur lönd vegna krónunnar.
- Skuldir skattborgaranna í ríkissjóði hækka um 100 milljarða króna á hálfu ári vegna verðtryggingar en ekki í grannlöndunum.
- Samkeppnisstaða Íslands í alþjóðaviðskiptum og erlendri fjárfestingu hefur fallið skarpt og er nú á botni í nýrri óháðri samanburðarkönnun.
Þetta þarf að tala um.