10 ágú Upp úr skotgröfunum
Umræðan um heilbrigðiskerfið okkar er enn og aftur komin ofan í skotgrafirnar. Er kerfið vel fjármagnað eða reka stjórnvöld sveltistefnu þegar kemur að heilbrigðismálum? Er kerfið undirmannað eða ofmannað? Rangt mannað? Er Landspítalinn vel rekinn eða er reksturinn þar botnlaus hít sem gleypir allt fjármagn án þess að staðan lagist af nokkru viti?
Samanburður við þau lönd sem við viljum helst bera okkur saman við er ekki alltaf einfaldur. Við verjum lægra hlutfalli af landsframleiðslu til heilbrigðismála en við erum yngri þjóð sem þar af leiðandi þarf ekki jafn dýrt heilbrigðiskerfi. Svo felast töluverðar áskoranir í fámenninu og dreifbýlinu, bæði hvað varðar rekstrarkostnað og mönnun. Afleiðingin er skortur á mikilvægri og oft og tíðum nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Tugir þúsunda eiga ekki fastan heimilislækni og bið eftir tíma getur hlaupið á vikum, jafnvel mánuðum. Biðlistar eftir tilteknum aðgerðum eru lengri en nokkru sinni. Sama á við um þjónustu Ráðgjafar- og greiningarstöðvarinnar þar sem börn geta þurft að bíða hátt í tvö ár.
Listinn yfir brýnar áskoranir í heilbrigðiskerfinu er mun lengri en hér nefni ég bara til viðbótar þá þjóðarskömm að sjúklingar liggja á göngum á bráðamóttöku Landspítalans dögum saman vegna rúmaskorts á spítalanum. Ímyndið ykkur að liggja inni á sjúkrahúsi og fá þær fréttir að fram undan sé erfið og tvísýn barátta við krabbamein. Bætið svo við þá mynd að þið liggið ekki inni í sjúkrastofu heldur frammi á gangi þar sem er stanslaus erill og fólk á þönum fram og til baka. Þið eruð fyrir, jafnvel svo mikið að stundum þarf að færa rúmið ykkar til að aðrir komist fram hjá. Ímyndið ykkur!
Prófið líka að setja ykkur í spor manneskju sem er lögð inn á sjúkrahús vegna slæmra höfuðverkja. Rannsóknir standa yfir og vondu fréttirnar lúra þarna einhvers staðar í bakgrunni. Ímyndið ykkur að liggja ekki í sjúkrarúmi inni á sjúkrastofu, heldur á bekk frammi á gangi. Ekki í nokkra klukkutíma heldur í einhverja sólarhringa. Hvernig er þetta hægt? Þessi staða er óboðleg fyrir bæði starfsfólk og sjúklinga.
Efnahagsmálin verða fyrirferðarmikil á næstunni; vaxandi verðbólga, vaxtahækkanir og kjaramál. Verkefni stjórnvalda verða ærin. En áskoranirnar í heilbrigðiskerfinu hverfa ekki á meðan. Við skuldum sjúklingum og heilbrigðisstarfsfólki að taka af krafti á bráðavandanum á meðan fundið er út úr því hvar megi laga til í rekstri og hvar þurfi að bæta í fjármagni til lengri tíma litið. Það er okkur ekki sæmandi að ræða þau mál áfram í skotgröfum. Það er okkur ekki heldur sæmandi að láta þessa stöðu viðgangast lengur.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. ágúst 2022