07 sep Hvernig Evrópa?
Ímyndið ykkur að fá 15 ára fangelsisdóm fyrir að skrifa Facebook-póst gegn stríði. Að vera dæmd í þrælkunarbúðir fyrir að tala gegn manndrápum í messu, sem prestur. Að vera dæmd fyrir landráð fyrir að mæta í friðsamleg mótmæli gegn stríði með bókina Stríð og friður eftir rússneska rithöfundinn Tolstoj. Þetta er veruleikinn í Rússlandi í dag.
Sömu sögu er að segja frá Hvíta-Rússlandi þar sem fjöldi fólks situr í fangelsum landsins fyrir að hafa tekið þátt í mótmælum. Þar erfjölmiðlafólk líka ofsótt og fangelsað fyrir að flytja fréttir af mótmælum eða grimmdarverkum gegn almenningi. Fyrir að neita að flytja falsfréttir Pútíns og Lúkasjenkós. Það var ólýsanlega áhrifaríkt að heyra frásagnir gesta frá Úkraínu, Hvíta-Rússlandi og Rússlandi á sameiginlegum fundi forsætisnefnda Norðurlandaráðs og Eystrasaltsþingins í fyrradag. Það er því miður líklega óþarfi að taka fram að gestum okkar frá Hvíta-Rússlandi og Rússlandi er ekki óhætt að láta sjá sig í heimalöndum sínum vegna eindreginnar gagnrýni á stjórnarhætti og framferði þeirra félaga, Pútíns og Lúkasjenkós.
Eins ógnvekjandi og hræðilegar sem frásagnirnar eru, jafn risavaxið og það verkefni er að stöðva framgang Pútíns, þá voru sterkustu hughrifin á fundinum von og kraftur. Það er okkar góðu gestum að þakka og því hugrakka fólki sem berst með þeim alla daga, hvar og hvernig sem það getur. Fólki sem berst gegn öflum sem vilja brjóta niður frjálsa og lýðræðislega Úkraínu. Fólki sem leggur líf sitt og fjölskyldna sinna í hættu í Rússlandi með því að mótmæla. Fólki sem berst leynt og ljóst gegn einræðisherranum í Hvíta-Rússlandi.
Ábyrgð okkar hinna liggur í því að þessi von og þessi kraftur beri árangur. Í nafni lýðræðis, í nafni mannréttinda og í nafni frelsis. Jevgenia Kara-Murza frá Free Russia-stofnuninni sem berst fyrir lýðræðisumbótum í Rússlandi, var ómyrk í máli þegar hún talaði um þessa ábyrgð: „Rússland er land sem var leyft að fara út af sporinu. Það þorði enginn að mótmæla, þóttist enginn sjá hvað var að
gerast, fyrr en það var orðið of seint.“
Allir gestirnir töluðu um mikilvægi frelsis og sjálfstæðis fjölmiðla. Það hefði aldrei verið meira og aldrei í meiri hættu. Áróðursvélar Pútíns væru svo skipulagðar, vel undirbúnar og fjármagnaðar að það þyrfti samstillt átak til að bregðast við. Við verðum að bregðast við. Þetta snýst ekki bara um Úkraínu. Þetta snýst um það hvernig Evrópu við viljum. Eitt er víst, við viljum ekki sömu Evrópu og Pútín sér fyrir sér.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. september 2022