28 okt Ákvörðun sem þjóðin á að taka
Það er löngu tímabært að spyrja almenning um það hvort hefja eigi samtal við Evrópusambandið að nýju. Tillaga þess efnis var rædd á fyrstu dögum þingsins. Í þeim umræðum virtust stjórnarliðar þó ekki átta sig á eðli tillögunnar. Málflutningur þeirra einkenndist af óljósum vangaveltum um aðildina sjálfa. Engin rök gegn því að vísa málinu til þjóðarinnar voru hins vegar nefnd.
Höfum aðalatriðin á hreinu
Ekki er rökrétt að fylla í eyðurnar með þessum hætti en ákveða síðan að málið skuli ekki rætt frekar. Málflutningur sem byggist á eintómum getgátum verður seint talinn sannfærandi. Það er eðlileg krafa að umræða um svona stórt mál grundvallist á rökum og réttum upplýsingum. Af þessum sökum viljum við einmitt hefja samtalið og spyrja þjóðina álits.
Stjórnarliðar héldu því fram að Ísland gæti ekki samið um skilmála og skyldur aðildar. Innan sambandsins skiptir öllu máli að ríki geti starfað saman á jöfnum grundvelli og til þess þarf að tryggja lagalegt samræmi. Réttarreglurnar gilda í grunninn en það er þó samningsatriði hvernig og hvenær reglur eru innleiddar. Nægir þar að horfa til fyrri fordæma. Til dæmis hafa Danir, Svíar, Finnar og fjölmargir fleiri samið um sérlausnir og undanþágur á þessu sviði.
Breyttar aðstæður kalla á viðeigandi viðbrögð
Á dögunum áttu sér stað þau merkilegu tíðindi að fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, Kjell Magne Bondevik, sem lengi hefur beitt sér gegn ESB-aðild landsins, kallaði nú eftir því að málið færi aftur á dagskrá. Of margt hefði breyst frá því að Norðmenn greiddu síðast atkvæði um aðild, ekki síst væri heimsmyndin allt önnur. Þar fyrir utan væri Kína að hasla sér völl á alþjóðasviðinu, á meðan Bandaríkin væru enn klofin innbyrðis.
Hann spurði hvort ekki væri rétt að Norðmenn endurmætu sína stöðu gagnvart ESB, rétt eins og Svíar og Finnar hefðu gert með tilliti til NATO. Einnig nefndi hann umhverfis- og loftslagsmálin, nú mikilvæg sem aldrei fyrr, þar sem Evrópusambandið hefði tekið afgerandi forystu. Bondevik spurði hvort ekki væri betra ef Noregur kæmi að stefnumótuninni sjálfri og tæki þannig forystu með vinaþjóðum sínum.
Loks ítrekaði hann mikilvægi þess að ræða málið á nýjan leik. Það þyrfti að gera almennilega og með heildarmyndina í huga. Réttast væri að spyrja norsku þjóðina álits með tvöfaldri atkvæðagreiðslu, fyrst um það hvort hefja ætti viðræður og svo aftur um aðildina sjálfa, enda málið þess eðlis að þjóðarviljinn þyrfti að vera skýr og milliliðalaus. Þessi sjónarmið eru eftirtektarverð í ljósi þess að Norðmenn hafa tvívegis áður greitt atkvæði gegn ESB-aðild. Engu að síður er nú talin þörf á að endurtaka leikinn í ljósi gerbreyttra aðstæðna.
Þessi sjónarmið komu einnig fram í grein sem formaður borgarráðs Óslóarborgar, Raymond Johansen, skrifaði fyrir um hálfu ári. Sambærileg sjónarmið lágu að baki ákvörðun Svía og Finna að sækjast eftir aðild að NATO, enda töldu ríkin nauðsynlegt að mæta breyttum aðstæðum með endurmati á eigin stöðu og auknu samstarfi við aðrar lýðræðisþjóðir. Þetta hefur líka verið tónninn hjá öðrum ríkjum Evrópu og raunar víðar. Kjarninn í þeirri hugsun er sá að lýðræðisríkin séu sterkari saman. Það á ekki síður við um Ísland.
Spyrjum þjóðina álits
Þegar aðstæður breytast með þessum hætti er ekki nema eðlilegt að Ísland endurmeti sína stöðu. Virkt og öflugt alþjóðasamstarf hefur alla tíð reynst landinu vel, einkum EES-samstarfið sem við höfum notið góðs af í meira en aldarfjórðung. Því má spyrja hvort ekki sé tímabært að taka lokaskrefið í Evrópusamstarfinu. En þá ákvörðun þarf þjóðin að taka. Treystum henni til að tjá hug sinn.