05 okt Farið að hvessa um vindorkuna
Djúpstæður ágreiningur stjórnarflokkanna þriggja á síðasta kjörtímabili varðandi hálendisþjóðgarð, sem þó var eitt af kjölfestumálunum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, gerði að verkum að málið var andvana fætt. Þáverandi umhverfisráðherra sagði að þrátt fyrir allt fælust í þeirri niðurstöðu skýr skilaboð Alþingis til ríkisstjórnar og ráðherra um að vinna áfram að málinu og koma hálendisþjóðgarði á koppinn á næsta [þessu] kjörtímabili. Enn sem komið er ber ekkert á þeirri vinnu.
Þetta rifjast upp nú þegar sviðsljósið beinist að öðrum djúpstæðum ágreiningi stjórnarflokkanna; nýtingu vindorkunnar. Þessi staða er áhyggjuefni því sporin hræða. Vindorkan snýst auðvitað í grunninn um orku- og loftslagsmál, en er líka risastórt efnahagsmál og byggðamál.
Ríkisstjórnin segist ætla að vanda sig vel við uppbyggingu vindorku hér á landi. Þannig á að leggja áherslu á að vindmyllurnar rísi á afmörkuðum svæðum nærri tengivirkjum og flutningslínum, líkt og á við um fyrirhugaða vindorkulundi Landsvirkjunar við Búrfell og Blöndu. Það á líka að leggja áherslu á að breið sátt ríki um uppbyggingu þeirra og er þar m.a. vísað til sjónrænna áhrifa, áhrifa á náttúruna og á dýralíf. Loks ætlar ríkisstjórnin að setja ákvæði í lög um gjaldtöku fyrir nýtingu vindsins.
Allt er þetta góðra gjalda vert en eins og dæmin sýna eru fögur fyrirheit í stjórnarsáttmála langt frá því að vera trygging fyrir að svona verði þetta. Vinstri-græn vildu keyra hálendisþjóðgarðinn í gegn en Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur lögðust á bremsuna. Þegar kemur að yfirlýsingum um lagarammann fyrir nýtingu vindorkunnar og uppbyggingu á vindorkukostum yfirhöfuð virðist sáttin litlu minni. Það þarf enga spádómsgáfu til að spá því að innan stjórnarflokkanna verði hver höndin upp á móti annarri þegar farið verður að ræða staðsetningu vindorkuvera og greiðslu fyrir afnot af auðlindinni.
Það er þegar farið að hvessa þar.
Sporin hræða sem sagt. Það er því miður ástæða til að óttast að stjórnarflokkarnir þrír þvæli vindorkunni fram og til baka næstu árin án þess að heildstæð löggjöf líti dagsins ljós. Á meðan munu áhugasamir fjárfestar kaupa jarðir, reyna að sannfæra sveitarstjórnir um ágæti eigin áforma, mögulega hefja fjárfestingar í búnaði í stórum stíl, jafnvel óháð nálægð við tengivirki og flutningslínur. Við þær aðstæður er hætt við að fyrri áform um vandaða uppbyggingu vindorku fjúki beinlínis út í veður og vind.
Vonandi er þessi ótti minn ástæðulaus. Auðvitað ætti það líka að vera þannig að við stjórnmálamenn næðum að tryggja vandaða löggjöf í þessu brýna og mikilvæga orkuskipta- og loftslagsmáli. Við getum ekki leyft okkur annað.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 5. október 2022