Ríkisstjórn sem hleypur frá reikningnum

Í allt sumar hefur fjárlagafrumvarp verið í smíðum hjá ríkisstjórninni. Þar sitja 12 ráðherrar í 12 ráðuneytum hjá þjóð sem telur tæplega 380.000 manns. Í allt sumar hafa vaxtahækkanir Seðlabankans valdið heimilum landsins áhyggjum, enda hafa mánaðarlegar afborganir lána á mörgum heimilum hækkað um tugi þúsunda. Stýrivextir hafa hækkað meira en þeir hefðu þurft, meðal annars vegna þess að ákvarðanir ríkisstjórnarinnar hafa unnið gegn markmiðum Seðlabankans.

Nú hefur fjárlagafrumvarpið verið lagt fram og kemur í ljós að það hljóðar upp á næstum 90 milljarða króna halla. Staðan er sterk segir fjármálaráðherra á meðan vaxtakostnaður skulda er fjórði stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs. Í kynningu ráðherrans segir svo nánast í framhjáhlaupi að ríkisútgjöld muni aukast um 79 milljarða.

Hvernig Ísland virkar best

Fjárlagafrumvarp er skýrasta yfirlýsing hverrar ríkisstjórnar um hvers konar pólitík hún stundar og um leið yfirlýsing um hvaða loforð skuli efna. Fjárlagapólitík snýst í reynd um einfalda en mikilvæga spurningu: Hvernig virkar Ísland best? Fjárlögin eiga að stefna að því að Ísland virki sem best fyrir fólkið í landinu.

Ríkisstjórnin talar um að það þurfi að verja viðkvæmustu hópana fyrir áhrifum verðbólgu sem sannarlega er gott markmið. Vandamálið er að þess sjást lítil merki. Veruleikinn er hins vegar að millitekjufólk fær skell. Sama fólk og hefur í allt sumar fundið fyrir hækkandi vöxtum á fasteignalánum og hækkandi verðlagi. Hingað verða tekjur sóttar.

Fjármálaráðherra talar líka um að ríkisfjármálin þurfi að styðja við markmið Seðlabankans um að ná verðbólgunni niður en segir ekki hvernig. Álögur á fólkið í landinu hækka og leiða þannig til hærra verðlags. Þessar álögur vega þungt í því samhengi að Ísland býður fólki í landinu nú þegar eitt hæsta matarverðið, hæstu vextina og dýrustu tryggingarnar. Orðið veiðigjald heyrist ekki þegar forystumenn ríkisstjórnarinnar tala um fjárlagafrumvarpið en með hækkun áfengisgjalds geta Íslendingar hins vegar fagnað nýju Evrópumeti. Við eigum áfram hæstu áfengisskatta Evrópu sem hækka nú enn.

Fjármálaráðherra talar um tækifæri í einfaldara ríkiskerfi. Það er hins vegar lítið um þetta í frumvarpinu. Stjórnkerfið varð heldur ekki áberandi einfaldara með fjölgun ráðherra og ráðuneyta í fyrra, en sú breyting mun kosta um 2 milljarða króna á kjörtímabilinu. En hvað um það þótt báknið blási út? Hvað með það þó að útgjöld aukist án þess að þjónusta batni? Hvað um það þótt mikilvægum fjárfestingum í innviðum sé slegið á frest? Hvað með það þó að heimilin séu að sligast undan dýrum lánum?

Heilbrigðiskerfið þarfnast framtíðarsýnar

Heilbrigðismálin eru stærsti útgjaldaliður fjárlaganna og sá málaflokkur sem þjóðin er einhuga um að verja og efla. Heilbrigðiskerfið þarf skýra framtíðarsýn til að mæta komandi verkefnum og áskorunum. Þar stinga háar vaxtagreiðslur ríkissjóðs þegar meira fjármagn þarf í innviðafjárfestingar. Margar áskoranir blasa við: Sérfræðilæknar skila sér ekki heim eftir nám erlendis og hjúkrunarfræðingar hverfa til annarra starfa. Stóra málið er að tryggja að Ísland standist samkeppni að utan.

Þingflokkur Viðreisnar hefur talað fyrir þjóðarsátt um bætt kjör kvennastétta og áður lagt fram þingmál þess efnis. Það er mikilvægur liður í því að styrkja heilbrigðiskerfið til lengri tíma. Fjárlagafrumvarpið gerir heldur ekki ráð fyrir fjármagni til að semja við sjálfstætt starfandi lækna, sem hafa verið samningslausir árum saman. Fjármagn í þetta verkefni er ekki í fjárlagafrumvarpinu. Vandinn þar er ekki síst til kominn vegna þess að ríkisstjórnin getur ekki komið sér saman um hver stefnan á að vera um heilbrigðiskerfið. Á meðan eykst vandinn.

Við höfum jafnframt gagnrýnt að í fjárlögum virðist ekki svigrúm til að mæta því að nýrri lyf kosta meira. Formaður Læknafélagsins sagði nýlega að vegna framfara færi lyfjakostnaður hækkandi, en því er ekki mætt í fjárlögum.

Lífskjör tekin að láni

Skynsamleg hagræðing er liður í að verja lífskjör almennings og velferð, samkeppnishæfni Íslands, og ekki síst liður í því að ná tökum á verðbólgu. Það er ótrúlegt að hægt sé að þenja út ríkið án þess að þjónusta þess batni. Í heilbrigðiskerfinu hafa biðlistar barna eftir þjónustu lengst jafnt og þétt á þeim fimm árum sem ríkisstjórnin hefur setið. Starfsfólk á krabbameinsdeild segir að deildin sé algjörlega sprungin og svona mætti áfram telja.

Það er ótrúlegt að hægt sé að auka álögur á heimili landsins sem þegar glíma við fasteignalán í hæstu hæðum og hækkandi matarverð. Alþjóðlegar efnahagshorfur hafa versnað hratt. Við þær aðstæður er merkilegt að ríkisstjórnin fari þá leið að taka lífskjör að láni og haldi blaðamannafundi um að hún stefni á að reka ríkissjóð með halla í mörg ár til viðbótar. Alveg til ársins 2027. Í því felst kannski alveg óvart viðurkenning á að næstu ríkisstjórn sé betur treystandi til að til að taka á málum og rétta reksturinn af. Staðreyndin er að ríkisstjórnin fer leið sem er stjórnvöldum auðveld en almenningi erfið: Að fresta því að takast á við vandamál en auka umsvif ríkisins án þess að bæta þjónustu við almenning. Þessi aðferðafræði er heimilum og fyrirtækjum landsins dýr, því þau eru skilin eftir með reikninginn.

 

Greinin birtist í Fréttablaðinu 5. október 2022 https://www.frettabladid.is/skodun/rikisstjorn-sem-hleypur-fra-reikningnum/